Stjórn peningamála og framtíð krónunnar verða stærstu úrlausnarefni komandi missera á vettvangi efnahagsmálanna. Sú umræða er samofin framtíðartengslum Íslands við Evrópusambandið og ekki hægt að slíta frá aðildarviðræðum né hagsmunamatinu sem þjóðin mun standa frammi fyrir þegar aðildirsamningurinn verður borin undir hana.

Efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, skrifaði ítarlega grein í Fréttablaðið þann 27. desember þar sem hann boðar víðtækt samráð og umræðu um málið.

Í grein sinn spyr ráðherra grundvallarspurningar sem svara verður af raunsæi og heiðarleika: „Vitum hvernig hörmungarsaga krónunnar hefur verið hingað til. Er eitthvað sem bendir til þess að eftirhrunskrónan verði betri eða veikleikarnir minni?″

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, bregst við grein Árna Páls í viðtali við Fréttablaðið þann 28. desember. Hann segir m.a: „Ég lít svo á að tilrauninni með krónuna sé lokið.″ Hann bendir einnig á að ASÍ og aðildarfélög sambandsins hafi ekki treyst sér til að gera kjarasamninga til langs tíma vegna þess að félögin séu brenn af óstöðugleikanum sem krónan hefur í för með sér.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, segir af sama tilefni að augljóst sé að peningastefnan hafi brugðist og nú um stundir byggist gengi krónunnar ekki á raunveruleikanum heldur gerviumhverfi sem henni sé búið með gjaldeyrishöftum. Það geti ekki gengið. Gjaldeyrishöftin verði að hverfa og opna verði gjaldeyrismarkaði.

Fréttablaðið 27. desember 2010