Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars boðaði Evrópuvakt Samfylkingarinnar til fundar á Kaffi Sólon þar sem lagt var út af spurningunni: Er aðild að ESB tækifæri eða ógn fyrir kvennabaráttuna.

Fyrst og fremst var rætt um stöðuna hér á landi en einnig innan ESB og möguleg áhrif íslenskra kvenna og femínískra viðhorfa á starf ESB.

Framsögu höfðu þær Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar og Snærós Sindradóttir, námsmaður og varaformaður Ungra vinstri-grænna.

Þær voru sammála um að aðild að ESB skipti ekki sköpum fyrir íslenska kvennabaráttu – viðfangsefnin væru í raun þau sömu þar og hér, þ.e. að breyta karllægum kerfum.

Sigríður Ingibjörg var frekar á því að aðildin yrði til gagns og íslenskir femínistar gætu lagt sitt af mörkum innan ESB. Það að vera femínisti og einlægur Evrópusinni færi vel saman.

Snærós var frekar á þeirri skoðun að það skipti litlu máli fyrir kvennabaráttuna hvort Ísland yrði aðili að ESB eða ekki. Þó gætu falist þar viss tækifæri. Hún væri þó af öðrum ástæðum andsnúin aðildinni.

Í lok framsöguerinda urðu skemmtilegar umræður og var gerður góður rómur að erindum þeirra beggja.

Ræða Sigríðar Ingibjargar er í heild sinni hér fyrir neðan myndböndin.

Erindi þeirra beggja voru tekin upp og má sjá þau hér að neðan:

ESB, tækifæri eða ógn fyrir kvennabaráttuna – Sigríður Ingibjörg Ingadóttir from Samfylkingin XS on Vimeo.

ESB, tækifæri eða ógn fyrir kvennabaráttuna – Snærós Sindradóttir from Samfylkingin XS on Vimeo.

ESB, tækifæri eða ógn fyrir kvennabaráttuna?
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Fundarstjóri og ágætu fundargestir, til hamingju með daginn.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta fundarboð. Á alþjóðegum baráttudegi kvenna er við hæfi að ræða eitt mikilvægasta og um leið umdeildasta viðfangsefni stjórnvalda næstu misserin út frá sjónarmiði kvenna sérstaklega. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að það er þjóðin sjálf sem mun ákveða endanlega hver niðurstaðan verður í málinu náist samningar milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins, konur jafnt sem karlar.

Tengsl kvennabaráttu og kvenfrelsis við Evrópusamandið er víðfemt viðfangsefni og ljóst að það má nálgast frá ólíkum sjónarhornum. Ég tala hér í dag sem femínisti og Evrópusinni en ekki sem sérstakur sérfræðingur í jafnréttismálum innan ESB. Ég tel einnig rétt að ræða þessi mál í víðu samhengi, en festast ekki í einstökum lagagreinum eða tæknilegum efnum. Einbeitum okkur að hugsjóninni um friðsæla og farsæla Evrópu.

Rétt er að segja það skýrt að ég er ekki hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu vegna þess að ég telji það sérstakt gósenland femínismans og þar með lausn á vandamálum kvenfrelsis á Íslandi. Ég lærði það í mínu pólitíska uppeldi í Kvennalistanum að líta valdakerfi af því taginu sem Evrópusambandið er gagnrýnum augum. Í ESB eins og víða annars staðar lifir gamalgróið karlveldi góðu lífi og þar er verk að vinna fyrir femínista. Við ættum þó að forðast að draga upp þá mynd að karlveldi Evrópusambandsins sé eitthvað verra eða af öðrum toga en það karlveldi sem stjórnað hefur þjóðríkjum Evrópu að miklu leiti til þessa dags. Sér í lagi ættum við ekki að fegra þá mynd sem blasir við þegar íslenska þjóðríkið er skoðað með gagnrýnum augum og bera það síðan saman við einhliða ímynd hins erlenda karlveldis.

Hafa ekki karlar ráðið hér ríkjum á öllum sviðum? Voru það ekki karlar sem settu landið í þrot? Helstu andstæðinga aðildar að ESB má finna hjá Bændasamtökunum og LÍÚ. Um þau samtök má margt gott segja, en síst af öllu er þar heimilsfesti framsækins femínisma á Íslandi. Gagnrýnið viðhorf til valdastofnana útilokar ekki raunsætt mat á valkostum okkar sem þjóðar. Við skulum hugsa gagnrýnið um kosti og galla okkar eigin samfélags ekki síður en kosti og galla Evrópusambandsins sem samstarfsvettvangs Evrópuríkja.

Evrópusambandið var stofnað á grundvelli þrotabús þjóðríkja Evrópu. Í lok stríðsins átti hugsjónin um sameinaða Evrópu mikinn hljómgrunn meðal almennings í Evrópu. Krafan var um samvinnu og frið í stað átaka og stríðs. Pólitískir og efnahagslegir hagsmunir þjóðríkjanna féllu einnig vel að þessari kröfu almennings, enda hefur samstarfið aukist og dýpkað með árunum.

Í aðdraganda þess að Íslendingar gerðust aðilar að EES varð ég Evrópusinni. Ég sá þá, og sé enn, mikil tækifæri í aðild að Evrópusambandinu. Eins og allir hér vita er Evrópusambandið friðarbandalag sem vinnur að velsæld í Evrópu og vinnur með markvissum og öguðum vinnubrögðum að langtímaáætlun um félagslegar og efnahagslegar framfarir. Þetta þótti mér eftirsóknarvert fyrir Ísland árið 1991, nú 20 árum síðar hef ég styrkst í þessari sannfæringu minni. Við sækjum nú þegar margar fyrirmyndir til Evrópusambandsins enda er það nú einu sinni þannig að Ísland er hluti af umheiminum og er að fást við svipaðar áskoranir og önnur Evrópuríki.

Reynsla okkar af EES er ekki sú að íslenskum jafnréttismálum stafi sérstök ógn af evrópsku samstarfi. EES hefur ekki verið neinn þröskuldur í íslenskum jafnréttismálum, hvort sem litið er til stefnummörkunar stjórnvalda eða í samfélaginu almennt. Þvert á móti má hafa ýmsan stuðning af samningnum og löggjöf sem af honum hefur leitt, ekki síst á sviði launajafnréttis og atvinnuþáttöku kvenna. Evrópskt samstarf á sviði jafnréttismála hefur einnig nýst okkur vel við að efla þekkingu okkar á jafnréttismálum og ýta við stjórnvöldum. Þátttaka í alþjóðlegum áætlunum á borð við Progress-áætlunina, sem ætlað er að auka jafnrétti og jafnréttisvitund innan stjórnsýslunnar, er okkur mikilvæg. Alþjóðlegt samstarf á sviði jafnréttismála þarf að auka, ekki síst á sviði mansals og ofbeldis gegn konum. Við skulum heldur ekki gleyma því að við höfum ýmislegt fram að færa í alþjóðlegu samstarfi á sviði jafnréttismála og Evrópusambandið lítur nú til íslenskrar löggjafar um fæðingarorlof og kynjakvóta í stjórnum hins opinbera og fyrirtækja sem framsækinnar lagasetningar til að auka réttindi og völd kvenna. Með aðild fáum við aukin tækifæri til áhrifa á þróun málaflokksins innan Evrópu, aukið aðgengi að fjármunum til rannsókna og getum miðlað, lært og þróað áfram þekkingu okkar á sviði jafnréttismála. Frá sjónarmiði jafnréttismála er reynslan af EES því fremur jákvæð en neikvæð.

Meðal norrænna feminista, og þar með íslenskra, hafa verið uppi gagnrýnisraddir á Evrópusambandið. Það verður þó ekki séð að eftir að Norðurlöndin gengu í ESB hafi jafnréttismálum hnignað í þessum löndum, eða að staða þessara mála sé betri í Noregi og Íslandi sem ákveðið hafa að standa fyrir utan ESB. Þessi reynsla ætti að hjálpa okkur að hugsa raunsætt um ESB og slá á hræðsluna. Aðild að ESB er engin ógn við jafnréttismál, en það er engin patentlausn heldur þó að margt jákvætt megi segja um jafnréttisstefnu ESB. Ég vil því líta á evrópskt samstarf sem tækifæri á sviði jafnréttismála, eitt af þeim tækjum sem nota má til að ná árangri. Við höfum ekki tekið upp alla löggjöf ESB á sviði jafnréttismála. Eflaust má líta á upptöku slíkrar löggjafar sem aðlögun og blása upp sem ógnun við fullveldi þjóðarinnar, en ég á bágt með að sjá það sem ógnun við jafnréttismál á Íslandi eða mannréttindi almennt, þvert á móti hefur ESB verið framsækið í að þróa leiðir til að vinna gegn hvers kyns mismunun, á grundvelli kyns, trúarbragða, uppruna og  kynhneigðar .

Þær 27 þjóðir sem nú mynda Evrópusambandið eru mjög mislangt á veg komnar í jafnréttismálum. En ESB er framsækið á sviði jafnréttismála og strax í Rómarsáttmálanum var kveðið á um jöfn laun kynjanna fyrir jafnverðmæt störf og jafnrétti er eitt af grunngildum sambandsins. Innan þess hefur verið unnið með samþættingu kynjasjónarmiða í alla löggjöf frá því á 10. áratug síðustu aldar. Evrópuþingið er einnig metnaðarfullt á sviði jafnréttisbaráttunnar og ríflega þriðjungur þingfulltrúanna eru konur. Evrópusamandið hefur sett sér jafnréttisáætlun fyrir árin 2010-2015.

Í henni eru fimm megináherslur:

•  Efnahagslegt sjálfstæði beggja kynja

•  Sömu laun fyrir sömu og jafn verðmæt störf

•  Valdajafnvægi í ákvarðanatöku

•  Sjálfsákvörðunarréttur kvenna og friðhelgi til að binda enda á kynbundið ofbeldi

•  Stuðningur við kynjajafnrétti utan Evrópu

Þessar áherslur eru mjög í anda þeirra markmiða sem unnið er að í þeirri jafnréttisáætlun sem nú er til umfjöllunar í þinginu. Viðfangsefni kvennabaráttunnar eru þau sömu um allan heim, afbygging feðraveldisins, baráttan gegn ofbeldi á konum og baráttan fyrir efnahagslegu sjálfstæði kvenna.

Í dag fögnum við 100 ára afmæli 8. mars sem er  alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir félagslegum, pólitískum og efnahagslegum réttindum.

Ég hef talað fyrir því að aðild að Evrópusamandinu sé ekki ógnun við þessi markmið, heldur þvert á móti feli aðild í sér mikil tækifæri vilji konur nýta sér þau. Við skulum þó ekki geyma því að hér eftir sem hingað til mun jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi í víðum skilningi eiga mest undir baráttu kvenna og samstöðu, jafnt innan ríkja sem þvert á landamæri. Í þá baráttu eru allir karlar velkomnir, jafnt innan sem utan ESB.