Já Ísland hefur nú mánaðalega kvennafundi um Evrópusambandið í hádeginu fyrsta miðvikudag hvers mánaðar. Fyrsti fundur verður miðvikudaginn næsta 2. nóvember kl 12 á Sólon 2. hæð. Súpa á tilboði.

Að þessu sinni mun Sema Erla Serdar, stjórnmála- og Evrópufræðingur flytja erindi um Evrópusambandið, þróunarmál sambandsins sem og friðarumleitanir þess, með tilliti til Ísrael-Palestínu deilunnar.

Mastersritgerð Semu Erlu við Edinborgarháskóla fjallaði um þau áhrif sem Evrópusambandið hefur haft á friðarumleitanir milli Ísraela og Palestínumanna og stuðning sambandsins við Palestínumenn.

Úrdráttur:

Það er staðreynd að Evrópusambandið er langstærsti veitandi þróunaraðstoðar í heiminum, en í dag ná þróunarverkefni sambandsins til allra heimshorna og hinna ýmsu sviða, en Evrópusambandið leggur til dæmis mikla áherslu á að aðstoða þróunarríki við að taka þátt í alþjóðaviðskiptum upp á eigin spýtur.

Þá er friður eitt af grunngildum Evrópusambandsins og er stofnun sambandsins besta dæmið um það, en Evrópusambandið var stofnað til þess að koma á friði milli ríkja Evrópu eftir tvær heimsstyrjaldir. Það kemur því ekki á óvart að það leið ekki á löngu þar til ríki Evrópusambandsins tóku sig saman og ákváðu að saman skildu þau dreifa út friðarboðskapinn. Deilan milli Ísraela og Palestínumanna hefur í því samhengið verið eitt af helstu málefnum Evrópusambandsins og hefur ESB alla tíð reynt að stuðla að friði milli Ísraela og Palestínumanna, unnið að uppbyggingu á stríðshrjáðum svæðum, reynt að bæta lífskjör Palestínumanna og svo margt margt fleira.

Hér er viðburðurinn á facebook: http://www.facebook.com/event.php?eid=103623683084296