Á morgun, föstudaginn 19. október, fer fram fyrsti fundurinn í fundaröð Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Evrópusamræður, en tíu málstofur um Evrópusamrunann munu vera haldnar í vetur. Stofnunin hlaut styrki frá Evrópustofu og úr Jean Monnet sjóði ESB til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópumál á Íslandi.

Fundurinn á morgun ber yfirskriftina Kynjasamþætting í 15 ár: Alþjóðleg viðhorf og stefna Evrópusambandsins. Á vef Alþjóðamálastofnun kemur fram eftirfarandi lýsing á fundinum:

Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvenær kynjasamþætting leit fyrst dagsins ljós. Sumir vilja meina að upphaf þess megi rekja til kvennafundanna í Beijing 1995 en skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna má rekja til ársins 1997. Það má því segja að kynjasamþætting hafi verið við lýði í 15 ár. En hver eru alþjóðlegu viðhorfin til þessa og hvaða áhrif hefur stefna Evrópusambandsins í kynjasamþættingu haft á aðildarríkin?

„15 ár af kynjasamþættingu og hvað með það?

Dr. Joni Seager, prófessor og deildarstjóri við Bentley háskóla í Bandaríkjunum, segir frá kostum og göllum í stefnum alþjóðlegra stofnanna varðandi kynjasamþættingu.

„Það sem er falið í snjónum kemur í ljós í þíðu“

Jenny Claesson, markaðstjóri Add Gender í Svíþjóð, deilir reynslu sinni af kynjasamþættingu  í Svíþjóð.

Fundurinn er haldinn í samstarfi við EDDU öndvegissetur. Hann fer fram milli klukkan 12 og 13.15 í Odda, stofu 201.

Allir velkomnir.