Í Fréttablaðinu í dag, þann 4. október, birtist góð grein eftir Önnu Margréti Guðjónsdóttur, stjórnarmann í Já Ísland, þar sem hún ber saman húsnæðislán hjá Arion banka og ING bankanum í Belgíu, og eru niðurstöðurnar áhugaverðar. Hér fyrir neðan er hægt að lesa greinina í heild sinni:

Flestir þurfa að taka lán til að koma sér upp þaki yfir höfuðið.  Það á ekki bara við um Íslendinga heldur líka íbúa annars staðar í Evrópu og öllum heiminum ef því er að skipta.  En þar sem við erum Evrópubúar getur verið hollt og skynsamlegt að  skoða og bera saman hvaða kjör bjóðast okkur í samanburði við nágranna okkar þegar kemur að því finna fé til húsnæðiskaupa.

Allur samanburður í þessum efnum hefur verið snúinn hingað til því langflest lán til húsnæðiskaupa, hér á landi, hafa um áratuga skeið verið verðtryggð, en slíkt þekkist ekki í öðrum Evrópulöndum.  Nú eru sumir íslensku bankanna farnir að að bjóða óverðtryggð lán með föstum vöxtum til a.m.k. fimm ára og vænkar þá hagur þeirra sem vilja bera saman aðstöðu okkar og annarra Evrópubúa.  Kjör okkar batna hins vegar ekkert – því miður.

Dæmin hér að neðan eru tekin af heimasíðu Arion banka og ING bankans í Belgíu þann 27. september 2011.  Forsendur eru þær sömu, þ.e. beðið er um 16 milljón króna lán annars vegar og 100.000 evra lán hins vegar með veði í fasteign. 100.000 evrur samsvara tæplega 16 milljónum íslenskra króna miðað við gengi Seðlabanka Íslands sama dag.  Lánin eru bæði til 25 ára og í báðum tilvikum er um að ræða fastar mánaðarlegar afborganir á lánstímanum eða 300 afborganir alls.  Niðurstaðan er þessi:

 

ING banki Arion (óverðtryggt)
Lánsfjárhæð 15.932.000 ISK 16.000.000 ISK
Vextir 4,20% 6,45%
Afborgun á mánuði 85.165 ISK 107.634 ISK
Heildargreiðsla 25.549.000 ISK 32.293.000 ISK
Þarf af vextir 9.617.000 ISK 16.263.000 ISK

 

Báðir bankarnir hafa þann varnagla á að endurskoða vextina að fimm árum liðnum. Samkvæmt skilmálum ING bankans geta þeir þó hvorki hækkað né lækkað um meira en 5% þegar þar að kemur.  Ekkert slíkt þak er að finna hjá Arion banka.

Íbúum víðast hvar í Evrópu bjóðast svipuð lánakjör og ING bankinn í Belgíu býður.  En þau bjóðast ekki okkur Íslendingum – við verðum að sætta okkur við að borga nokkur hundruð þúsund krónum meira en þeir, á ári hverju, fyrir nákvæmlega samskonar lán. Svo lengi sem við stöndum fyrir utan Evrópusambandið.

Nú er spurt: Hvaða kjör viljum við láta bjóða okkur, börnum okkar og barnabörnum í framtíðinni? Lán eða ólán?