Hallur Magnússon leggur það til í pistli sínum á Eyjunni að samið verði við ESB um íslenskan landbúnað á grundvelli umhverfismála, en ekki landbúnaðarmála.

Hann bendir á að stór markaður fyrir íslenskar landbúnaðarvörur geti orðið til í Evrópu, en það sem hafi staðið í vegi fyrir slíku séu takmarkaðir innflutningskvótar á evrópska markaðssvæðið.

„Það eina sem þarf að tryggja er að hefðbundinn íslenskur landbúnaður haldist áfram sem hefðbundinn íslenskur landbúnaður.[pullquote] Þó með þeirri breytingu að íslenskir bændur geti lifað sómasamlegu lífi í stað þess hokurs og fátæktargildru sem íslensk stjórnvöld hafa skapað þeim á undanförnum árum[/pullquote]. Það er tiltölulega einföld leið að tryggja það í aðildarsamningum við Evrópusambandið. Við göngum frá samningum um íslenskan landbúnað á grundvelli umhverfismála en ekki á grundvelli landbúnaðarmála. Við eigum að fara fram á að Evrópusambandið viðurkenni íslensku sauðkindina og íslenska kúastofninn sem einstaka dýrastofna – sem þeir eru – og á grundvelli þess að tryggja lífræna fjölbreytni og vernd dýrategunda – þá verði sú sérstaða íslenskra húsdýrastofna viðurkennd,“ segir Hallur í pistli sínum.