Grein dagsins ritar Guðmundur Hallgrímsson lyfjafræðingur, í tilefni þess að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hófst í gær. Í grein sinni fjallar Guðmundur um fyrrum landsfundi sem hann sat áður, en hefur hætt, sérstaklega vegna afstöðu flokksins í málum Evrópusambandsins. Greinina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Sú var tíðin, eða allt frá 1960, að ég hlakkaði til landsfunda Sjálfstæðisflokksins, mér þóttu þeir lýðræðislegir og mikil skemmtun. Þannig leið mér fram að 1990 en eftir það var það fremur af skyldurækni en tilhlökkun að ég sótti landsfundi. Nú gleðst eg yfir því að hafa ekki rétt til að sitja slíkan fund.

Ástæðan er einföld. Flokksforystan berst hatrammlega gegn einu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar sem er aðild að ESB og vill ekki einu sinni leyfa kosningar um væntanlegan samning við sambandið og nýtur þar liðsinnis öfgamanna á vinstri væng stjórnmálanna. Ég þreifst ekki í slíkum flokki og hef því sagt skilið við hann.

Ég sótti þrjá síðustu landsfundi fyrir hrun og uppgötvaði þá að flokkurinn var í álögum. Þjóðernis- og nýfrjálshyggja átti greiðan aðgang að flestum landsfundarfulltrúum og þeir sem voru eða þorðu að vera annarrar skoðunnar en flokksforustan voru nánast lagðir í einelti. Meðal annars.fékk ég einu sinni tölvupóst frá formanni flokksins og forsætisráðherra þar sem ég var nánast beðinn  að halda mig á mottunni.

Á fyrrnefndum þremum landsfundum telst mér til að Evrópumálin hafi samanlagt verið rædd í tíu mínútur eftir að þau komu úr utanríkismálanefnd fundarins. Til samanburðar var tillaga nokkurra ungra sjálfstæðismanna um að leyfa sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum rædd samanlagt í marga klukkutíma, ég nóteraði hjá mér yfir 4 klst. Þessi ,,mikilvæga” tillaga var efst á blaði Sjálfstæðisflokksins þegar Alþingi kom saman til fyrsta fundar  á árinu eftir hrunið mikla.

Aðferðin sem flokksforystan notaði til að komast hjá umræðu um ESB á landsfundum var að taka ekki til umræðu tillögur utanríkismálanefndar fyrr en að ræðutími hafði verið styttur í tvær mínútur .Þetta á við tvo  af umræddum landsfundum. Í upphafi eins fundarins, þar sem leiðtogar flokksins svöruðu spurningum landsfundarfulltrúa, sendi ég skriflega fyrirspurn er snerti ESB til þáverandi formanns flokksins, Davíðs Oddssonar. Ég fékk ekkert svar þótt fundarstjóri tilkynnti í lok fundar að öllum spurningum hefði verið svarað.

Þessi sami formaður sannfærði mig í kringum 1990 um að Ísland ætti að sækja um aðild að EB, eins og það hét þá,  og orðaði það snilldarlega. Sagði meðal annars að við ættum ekki að mæta til þeirra viðræðna alteknir ótta og kjarkleysi heldur sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkend. Nú er  sami maður hatrammasti andstæðingur samninga við ESB og hefur lagt undir iðju sína fyrrum stórblað Íslands Morgunblaðið. Það sem er dapurlegast í þessu sambandi er hjarðhegðun  meirihluta landsfundarfulltrúa  sem virðast til í að skipta um skoðun í þjóðhagslega mikilvægum málum aðeins ef forystumenn flokksins fara fram á það.

Á landsfundinum sem nú er í gangi verður flokkurinn að upplýsa þjóðina hvað hann leggi til í peningamálum, sem er stórmál, ef  hann enn eina ferðina samþykkir að draga umsókn Íslands að ESB til baka. Baráttuna gegn ESB aðild tel ég vera alvarlega atlögu  að þjóðarhag. Það er dapurt hlutskipti míns gamla flokks.