Bryndís Ísfold framkvæmdarstjóri Já Ísland skrifaði grein á bloggsíðu sína í gær um samhengi frétta síðustu viku í tengslum við krónuna og evruna.

 

Maður út í bæ er með fyrirtæki, hann gerir alltaf áætlanir og þrátt fyrir það , græddi hann í fyrra en tapaði í ár þó svo það hafi verið vöxtur hjá honum í ár, skilaði hann eigendum sínum tapi í ár, en hagnaði í fyrra!

(Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku lýsir þessu svona á Rúv í dag: „Maður gerir aldrei ráð fyrir að krónan falli í gjaldeyrishöftum og öllu slíku. En það er sveifla þarna á milli ára upp á tæpar 1.800 milljónir, gengishagnaður á fyrra ári og gengistap á þessu, sem skýrir nánast mismuninn á afkomunni. “)

Þjóð ein lenti í hruni og hver maður tapaði a.m.k. 30% af verðgildi launa sinna á einni nóttu, maðurinn hætti að geta borgað reikningana sína.

(Launin okkar misstu að lágmarki 30% af verðgildi sínu með hruninu á einu bretti þegar krónan hrundi. Eins og verkalýðshreyfingin hefur margítrekað bent á.)

 

Sama þjóð hefur tapaði 27.4 prósentustigum af ráðstöfunartekjum frá árinu 2007 – 2010, hversu stór hluti er vegna kostnaðs við krónuna er óljós en hann er stór.

(Í nýrri frétt í Fréttablaðinu í dag er bent á að uppsafnaður kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur minnkað um 27,4 prósent á árunum 2007 til 2010 en þetta er samkvæmt tölum Hagstofunnar og kom fram á fundi hjá BSRB í vikunni. )

 

Þessi sama þjóð er að sligast undan verðtryggðum húsnæðislánum. Þjóðin borgar 1-2 milljónir á ári í íbúðarlán á sama tíma og íbúar nágranna ríkjanna sem eru með evrur borga 500 -800 þúsund fyrir sama lán. Íbúar Evruríkjanna vita ekki hvað verðtryggð lán eru.

(Hagfræðingur ASÍ benti á í síðustu viku að við borgum margfalt meira fyrir húsnæðislánin okkar en íbúar Evruríkjanna. Haft var eftir honum eftirfarandi: ,,Þau evrópsku greiði á bilinu 500-800 þúsund krónur á ári en þau íslensku borgi 1-2 milljónir króna á ári. Sé þessi munur reiknaður sem hlutfall af tekjum þeirra eftir skatta þurfi íslensku hjónin að eyða 18% meira af ráðstöfunartekjum sínum í greiðslur af húsnæðislánum en þau evrópsku.“)

 

Í þessu landi er risastórt fyrirtæki sem margir horfa til sem ,,fyrirtæki framtíðarinnar“ forstjóri fyrirtækisins líkir gjaldmiðlinum við fílinn í stofunni sem enginn vill sjá. Hann vill fá hina myntina sem kostar minna og sveiflast ekki eins og pendúll, svo hann og fyrirtækið hans geti verið áfram á landinu.

(Forstjóri Össurar talaði svo á Viðskiptaþingi í dag og benti á að það að þegar menn þakka krónunni fyrir velgengnina væri það eins og að þakka brennuvargi fyrir að ekki fór verr. Hann sagði einnig að óstöðugur gjaldmiðill væri ástæðan fyrir reiði í þjóðfélaginu. Þetta valdi eignatilfærslum sem fólk er skiljanleg reitt yfir. Þá kallaði hann krónuna fílinn í stofunni. Hann sagði aðild að ESB og upptaka evrunnar væri sú leið sem hann kysi. )

 

Það er gleðiefni að við séum í aðildarviðræðum því við verðum að leysa þetta krónuvandamál – til langs tíma.

Skyndilausnir með krónuna hafa mistekist í áratugi á kostnað allra,

fylleríinu verður nú að ljúka og það eru engir afréttarar í boði.