DSC02631Egill Almar Ágústsson, meistaranemi í hagfræði og fjármálum við Brandeis-háskóla í Bandaríkjunum, skrifar grein í Viðskiptablaðið, þann 23. maí, um hvernig hægt sé að leysa gjaldeyrishöftin og hleypa peningum úr landi án skakkafalla. Greinina má lesa hér að neðan.

Gjaldeyrishöftin eru til staðar vegna þess að peningamagn á Íslandi er gífurlega mikið. Stór hluti þess fjármagns, eitthvað undir 1.000 milljarðar, vill fara úr landi. Þess vegna, ef gjaldeyrishöftin eru afnumin mun skapast gjaldeyriskreppa og afleiðingarnar verða hörmulegar fyrir heimili og fyrirtæki. Hér er ferli til að leysa gjaldeyrishöftin og hleypa peningunum úr landi án þess að það kosti okkur mikið né að það verði skakkaföll.

1. Seðlabankinn byrjar að taka við bundnum innlánum

 • a. Innlánin eru bundin í 10 ár eða þar til Ísland hefur tekið upp evru með inngöngu í ESB (hvort sem kemur fyrr).
 • b. Innlánin fá umsamda vexti.
 • c. Stjórnvöld semja við erlenda eigendur krónueigna og kröfuhafa bankana um að allar krónueignir þeirra (þ.m.t. endurumsamið skuldarbréf Landsbankans) verði færðar inn á þessa bundnu innlánsreikninga í Seðlabankanum.
 • i. Þarf að vera á hreinu að þetta sé eina leiðin til að ná fjármagninu úr landi án afskrifta.
 • ii. Hér reynir á að stjórnvöld beiti þrýstingi eða semji með klókindum.
 • d. Þar sem peningarnir (mörg hundruð milljarðar) færast á efnahagsreikning Seðlabankans hefur þessi aðgerð ekki áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs.
 • e. Seðlabankinn þarf að passa upp á að peningamagn í hagkerfinu (M2) minnki ekki óhóflega. T.d. gæti hann keypt ríkisskuldabréf á markaði til að vega upp á móti. Með því að Seðlabankinn safni þessu óþolinmóða fé inn á bundna innlánsreikninga hefur peningamagn í hagkerfinu í raun minnkað næstu 10 árin. Þar sem féð er nú bundið verður hægt að leysa gjaldeyrishöftin strax án þess að krónan falli.

2. Gjaldeyrishöftin eru afnumin strax

Nú gefast 10 ár til búa til umhverfi þar sem bundna fjármagnið getur farið úr landi. Upptaka evru er eina leiðin til þess.

3. Aðildarumsóknin er kláruð og gengið inn í Evrópusambandið

 • a. Þarf að gera ESB grein fyrir þessari áætlun þegar samningar standa yfir.

4. Ísland gengur í ERM 2 ferlið til að taka upp evru og uppfyllir Maastricht-skilyrðin

 • a. Verðbólga verður lítil þar sem peningamagn er viðráðanlegt.
 • b. Ríkisskuldir verða undir 60%.
 • i. Hreinar skuldir ríkissjóðs í dag eru um 761 milljarður eða 42% af VLF (Lánamál, mars 2013).
 • ii. Seðlabankinn skilar öllum gjaldeyrisvaraforða til lánveitenda og fær í staðinn sambærilega lánalínu frá Evrópska Seðlabankanum.
 • iii. Efnahagsreikningur Seðlabankans telst ekki með sem skuldir ríkissjóðs.

5. Ísland tekur upp evru með aðstoð Evrópska Seðlabankans og Evrópusambandsins

Nú er komin evra á Íslandi. Allar íslenskar krónur breytast í evru sjálfkrafa og geta farið úr hagkerfinu án þess að fara í gegnum gjaldeyrismarkað

6. Bundnu reikningarnir í Seðlabankanum eru leystir út

Nú hefur Seðlabanki Íslands breyst í Seðlabanka Evrópu og reikningarnir eru í evrum.

7. Óþolinmóða fjármagnið getur farið úr landi án þess að nokkur skaði verði.