Ögmundur Jónasson skrifar tímamótagrein um Evrópumál í Morgunblaðinu í dag. Ég vona að Ögmundur tali ekki fyrir stefnu flokksins síns eða yfir höfuð fyrir stefnu nokkurs manns – utan hans sjálfs. Hann kemur mér fyrir sjónir sem óttasleginn maður sem óttast mest af öllu að missa land eða rými og að það bíði ljótir kallar handan hornsins sem eru að bíða eftir tækifærinu til að hrifsa þetta land og rými frá okkur. Hann er með það á hreinu að 2 milljónir ferkílómetra af áhrifum fylgi Íslandi og þannig muni áhrif ESB aukast um 20% með aðild Íslands að sambandinu.

„Það er ekki að undra að herskáir Evrópusinnar líti hýru auga til Festung Island, Virkisins í norðri. En ekki mun standa á styrkveitingum – svona rétt á meðan verið er að tala okkur til. Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn.“

Þetta er algjörlega ömurlegur málflutningur. Evrópusambandið er reist á rústum Evrópu eftir tvær heimstyrjaldir og raunar 1000 ára ófrið. Það var beinlínis stofnað til þess til að koma í veg fyrir galna þjóðernishyggju Hitlers.  Evrópusambandið er því andstaða þriðja ríkisins sem Ögmundur Jónasson hamast á að herma upp á sambandið í grein sinni. Hann segir m.a.:

„Í dag bið ég ykkur aðeins um eitt,“ segir talsmaður ESB, „að staldra við og átta ykkur á því að við Evrópubúar erum í þessu saman.“ Það vantar bara kröfuna um lífsrými.“

Þjóðernishyggja í kjölfar kreppu gat af sér fasismann og nasismann. Lífsrýmið og mútur með eldvatni sprettur upp úr fáfræðinni og með því að ala á óttanum. Það er óskiljanlegt að Ögmundur Jónasson bendli vinaþjóðum okkar Íslendinga við slíkt. Hverjir eru það einna helst sem eru að reyna fylla okkur og láta okkur reykja með sér friðarpípur? Eru það kannski Þjóðverjar sem hingað ferðast og eyða þjóða mest í kaupum á menningu okkar? Eru það kannski Danir sem á hverjum tíma hýsa um 10.000 íslendinga – sem þar starfa eða eru við nám? Kannski eru það Spánverjar sem kaupa af okkur saltaða þorskhnakka vestan af fjörðum?

Ögmundur lokar síðan sinni albrjáluðu grein með þessu:

„Við erum hluti af evrópskri menningu og eigum að leggja rækt við það besta sem hún hefur upp á að bjóða, og bjóða Evrópu upp á það besta sem við eigum.“

Hvers vegna eigum við að leita til samfélags sem ætlar sér að taka af okkur auðlindirnar, reisa hér Festung Island til þess að auka þeirra lebensraum? Þessi grein lýsir vel þeirri sturlun sem við búum við í stjórnmálum á Íslandi. Ég spyr að lokum: Hverjir í VG taka undir röksemdafærslur Ögmundar Jónassonar?

Greinin birtist einnig á bloggsíðu Gríms Atlasonar á http://blog.eyjan.is/grimuratlason/