Ráðgjafanefnd framkvæmdastjórar Evrópusambandsins undir forystu Erkki Liikanen, seðlabankastjóra Finnlands, hefur lagt til að stærstu bönkum í Evrópu verði gert að aðgreina hefðbundna viðskiptabankastarfsemi frá áhættusamri fjárfestingarbankastarfsemi með flóknar fjármálaafurðir og leggja til hliðar aukið fé vegna áhættulánastarfsemi.

Nefndin skilaði tillögum sínum til framkvæmdastjórnarinnar á þriðjudag.

Á vef Euractiv segir að skýrsla nefndarinnar fari nú til umfjöllunar hjá framkvæmdastjórninni en talið er að nokkur tími líði áður en frumvarp byggt á tillögum hennar lítur dagsins ljós. Fyrst um sinn muni framkvæmdastjórnin einbeita sér að þeim hugmyndum sem nú eru á borði hennar um nýtt bankabandalag og aukið hlutverk Seðlabanka Evrópu og Evrópska stöðugleikasjóðsins.

“Niðurstaða nefndarinnar er sú að það sé nauðsynlegt að lög geri kröfur um aðskilnað ákveðinni áhættusamrar fjármálastarfsemi frá innlánsviðskiptum í sömu bankasamstæðu,” segir í tillögum Liikanen-nefndarinnar. Tillögur hennar miðast við stærð efnahagsreikninga bankanna og verði þeim hrint í framkvæmd hafa þær áhrif á starfsemi fjórtán stærstu banka álfunnar.

“Meðal þess sem þarf að aðskilja eru viðskipti með eignir í verðbréfum og afleiðum og ákveðin önnur viðskipti sem eru nátengd verðbréfa- og afleiðumörkuðum.”

Skýrsla Liikanen- nefndarinnar gerir líka tillögur um að þeirri reglu verði fylgt að skuldabréfaeigendur beri tap af því að bankar komist í þrot. Jafnframt fái starfsmenn bankanna bónusa sína og árangurstengdar greiðslur greiddar með bankabréfum sem eru aftast í kröfuröðinni við gjaldþrot.

Eins og Íslendingar þekkja er aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi talinn auðvelda það að halda innistæðum almennings og almennri lánastarfsemi til fyrirtækja utan við áhættusækna starfsemi bankanna. Með aðskilnaði verði hægt að halda áfram grunnbankastarfsemi gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum þótt fjárfestingabankastarfsemin komist í þrot.

Margir stærstu bankar Evrópu, svo sem Barclays í Bretlandi, Deutsche Bank og BNP Paribas í Frakklandi blanda almennri viðskiptabankastarfsemi saman við áhættusækin viðskipti með hlutabréf, verðbréf og afleiður. Það gerðu einnig íslensku viðskiptabankarnir þrír, sem féllu haustið 2008.

Liikanen-nefndin leggur einnig til að bönkum verði gert að binda aukið eigið fé til þess að mæta tapi af áhættusækinni lánastarfsemi.

Á fréttavefnum Euractiv segir að forystumenn í Evrópusambandinu muni væntanlega fyrst um sinn einbeita sér að því að ná tökum á tökum á skuldavanda nokkurra ríkja og þeim bankavanda sem tengjast honum áður en farið verði að huga að tillögum Liikanen-nefndarinnar. Fyrir liggja tillögur um bankabandalag Evrópu þar sem Seðlabanka Evrópu og Evrópska stöðugleikasjóðnum er ætlað að hafa umsjón með sameiginlegu inngrip ríkja evrusvæðisins á bankamarkaði.

„Þessi skýrsla mun hafa áhrif á undirbúnining okkar að næstu skrefum,” er haft eftir Michel Barnier, sem hefur bankaeftirlit á sinni könnu innan framkvæmdastjórnarinnar. „Ég mun nú íhuga næstu skref, þar sem framkvæmdastjórnin mun kanna áhrif þessara tillagna á vöxt og öryggi fjármálaþjónustu.”

Talið er að ráðstafanir á borð við að lagt verði til hliðar eigið fé vegna áhættustarfsemi verði hluti þeirra ráðstafana sem þegar eru í undirbúningi. Þannig verði dregið úr áhættu hluthafa og skattgreiðenda af áhættusamri bankastarfsemi.

Monique Goyens, forstjóri Neytendasamtaka Evrópu, BEUC, fagnar tillögum Liikanen-nefndarinnar um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka í samtali við Euractiv. Hún átti sæti í nefndinni.

“Bankar sem eru “too big to fail” hafa treyst á aðstoð skattgreiðenda í fjármálakreppum jafnvel þótt aðgerðir bankanna hafi orsakað þá erfiðleika,” segir Goyens.

“Þetta er ekki eingöngu fullkomlega ósanngjarnt – af því að sá sem tekur áhættuna á að bera hana – heldur skekkir þetta samkeppnisstöðuna gagnvart þeim bönkum sem ekki njóta góðs af þessari baktryggingu.

Hún segist vonast til þess að framkvæmdastjórn ESB taki nú tillögur nefndarinnar upp á sína arma og grípi til þeirra ráðstafna sem þarf til að leiða þær í lög.