Þegar erlendir menn eru að skoða Ísland í dag og „hið íslenska efnahagsundur“ virðast þeir ekki gera sér grein fyrir ákveðnum séríslenskum einkennum. Þar ber vitanlega hæst liðónýtur gjaldmiðill, sem er varinn með gjaldeyrishöftum og útflutningsfyrirtækjum bjargað með því að færa rekstrarvandann yfir á launamenn í gegnum reglubundnar gengisfellingar krónunnar og þá um lækkun launa.

Þetta veldur því að verðbólga hér er helmingi hærri en þekkist í nágrannalöndum okkar og vextir eru þar afleiðandi tvöfalt hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. 80% þjóðarinnar býr við það ástand að vera gert að þola skert laun í gegnum endurteknar gengisfellingar krónunnar. Launamönnum eru með því gert að greiða aukaskatt vegna Hrunsins og fjármagna uppgönguna, á meðan litli hluti þjóðarinnar kemur sér undan því að vera þátttakandi í þeirri skattlagningu.

Við höfum í dag endurheimt um helming af falli kaupmáttarins frá toppi bóluhagkerfisins árið 2007. En það segir ekki allt um lífskjaraskerðinguna, kjörin versnuðu meira vegna skemmri vinnutíma, meira atvinnuleysis og aukinnar skuldabyrði heimilanna. Lífskjaraskerðingin kom til vegna gengisfalls krónunnar, sem íslenska valdastéttin dásamar og vill alls ekki vera án. Lífskjörin á árunum 2001 til 2007 voru að umtalsverðu leyti byggð á froðu og of háu skráðu gengi krónunnar.

Við upphaf 21 aldarinnar voru gerðar stórar breytingar í peningaumhverfi Íslands. Gengisskráning er gefin frjáls, Seðlabankinn er gerður sjálfstæður, tekin er upp verðstýrð peningastefna, og bankarnir eru einkavæddir. Opnað er á frjáls flæði fjármagns og afleiðingarnar koma strax fram í gífurlegri aukningu peningamagns í umferð. Afleiðingar innstreymis erlends lánsfjár, aflandskróna og hlutabréfafúsks og til varð hin margumrædda snjóhengja, sem eru aflandskrónur, erlendar krónueignir kröfuhafa bankanna og krónueignir margra landsmanna sem myndu vilja skipta í erlendan gjaldeyri. Þetta er svo stór vandi að hann er vart skiljanlegur venjulegu fólki. Það sem verra er, vandinn fer vaxandi.

Ef gjaldeyrishöftum verður aflétt án þess að gripið verði til sérstakra varnarráðstafana, mun að öllum líkindum skella á önnur risavaxinn efnahagslega kreppa í formi mikillar gengisfellingu krónunnar, sem myndi valda miklum verðbólguskell og ofurvöxtum sem myndi kaffæra til viðbótar fjölda heimila og fyrirtækja. Það er einungis ein raunsæ leið úr þessu og hún er að ná samningum við Seðlabanka ESB um upptöku Evru og fá aðstoð til þess að komast í gegnum hina ógnvænlegu snjóhengju.

Stígandi lukka er best, stóra vandamálið er óleyst við búum við gjaldmiðil sem ver lítinn hluta þjóðarinnar, sá hluti hagnast á því að viðhalda þessum gjaldmiðli, á meðan stóri hlutinn býr við lakari kost en þekkist í nágrannalöndum okkar. Það er auðvelt að smíða leiktjöld með heimastýrðum gjaldmiðli í skamman tíma, það er nefnilega málið.