Því miður komst ég ekki til að hlusta á Diana Wallis í vikunni, en las fréttir af komu hennar með áfergju. Viturlega minnti hún Íslendinga á að aðild að Evrópusambandinu á ekki, og getur ekki, bara snúist um sjávarútvegsmál. Vissulega skiptir sjávarútvegur Íslendinga miklu og við þurfum að ræða sjávarútvegsstefnu ESB, en við þurfum líka að ræða og fræðast um menntastefnuna, umhverfisstefnuna, byggðastefnuna, neytendastefnuna, vinnumarkaðsstefnu og allt hitt líka. Ef við göngum í  ESB erum við að fara að taka þátt í þessu öllu, ekki bara sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Ég er reyndar á þeirri skoðun að æstustu stuðningsmenn aðildar ættu að vera umhverfissinnar – sérstaklega þeir sem huga að umhverfisvernd í stóru samhengi en ekki í þrengra samhengi náttúruverndar.  Ef tala má um Lissabon sáttmálann sem „stjórnarskrá“ ESB, þá hefur þar langþráður draumur umhverfissinna ræst, þar sem mikilvægi umhverfismála er áréttað með afar skýrum hætti. Umhverfisvernd orðin stjórnarskrárvarin, ef svo má segja, enda eru evrópskir (sérstaklega mið-evrópskir) græningjar meðal sambandsins dyggustu stuðningsmanna.

Umhverfisverndarsinnar halda því fram, hvenær sem þeir geta, að ekki sé hægt að berjast gegn umhverfsvá nema þvert á landamæri. Til að eitthvað gerist þurfi ríki að vinna saman. Þetta hafa aðildarríki ESB haft að leiðarljósi og telja ekki nægjanlegt að tala bara um mikilvægi samstarfs, gjörðir verða líka að fylgja.

Fyrir helgi birti Barroso bréf til leiðtoga aðildarríkja ESB um næstu skref í loftslagsmálum. Hann viðurkennir að niðurstaða ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn hafi verið vonbrigði fyrir flesta – en nú sé ekki tíminn til að gefast upp, heldur gefa í. Í júní ætti að vera ljóst hver næstu skref verða – og verður það vonandi spennandi lesning.

Svanborg Sigmarsdóttir