Hefur efnahagshrunið á Íslandi breytt mati íslenskra stjórnmálaflokka á Evrópusambandsaðild? Þetta var ein þeirra lykilspurninga sem Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ og Christians Rebhan, doktorsnemi við HÍ og Humboldt-háskólann í Berlín glímdu við í nýlegri rannsókn. Niðurstöður hennar eru kynntar í hinu virta fræðitímariti Scandinavian Political Studies.

Greinin ber yfirskriftina „Iceland‘s Economic Crash and Integration Takeoff: An End to European Union Scepticism?“ Meginniðurstöður hennar eru á þá lund að Evrópustefna íslensku flokkanna hafi tekið litlum breytingum í framhaldi af hruni og aðildarumsókn Íslands. Þetta brýtur í bága við eldri kenningar þess efnis að breyttar efnahagsaðstæður leiði gjarnan til breytinga á Evrópustefnu flokka einstakra þjóðlanda í Evrópu. 

Í viðtali sem birtist nýlega á vef Háskóla Íslands segir Baldur Þórhalsson meðal annars: „Umsóknina um aðild að ESB verður að skýra með ítarlegri greiningu á stjórnmálaaðstæðum eftir hrun. Í þessu umróti gafst Evrópusinnum tækifæri að koma málstað sínum á framfæri og benda á veikleika hagkerfisins og krónunnar. Flestir flokkanna skoðuðu hvort þeir ættu að endurmeta Evrópustefnu sína og voru viljugri en áður að kanna kosti aðildar – þó að litlar breytingar hafi í raun orðið á stefnu þeirra. …  Það er einnig áhugavert að fara yfir hversu mikil og flókin Evrópuumræðan í rauninni er. Hún hefur ekki bara snúist um hvort sækja eigi beint um aðild að sambandinu heldur snertir einnig gjaldeyrismálin, stjórnarskrána og þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira.“