Evrópustofa býður til kynningarfundar um lýðræðisþátttöku ungs fólks í gegnum æskulýðsfélög í Evrópustofu, Suðurgötu 10, Reykjavík, fimmtudaginn 29. mars frá kl. 16-17:30.

Á fundinum deila Bryndís Torfadóttir, Ragnar Þorvarðarson, Sindri Snær Einarsson og Una Guðlaug Sveinsdóttir reynslu sinni af nýafstaðinni fræðsluferð til Brussel um lýðræðisþátttöku ungs fólks í gegnum æskulýðsfélög (Active Citizenship – Youth Organisations). Ferðin var skipulögð í gegnum svokallaða ,,People 2 People” áætlun Evrópusambandsins, en viðburðinn sóttu 40 æskulýðsfulltrúar frá þeim löndum sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu.

Bryndís Torfadóttir er formaður Félags ungra jafnréttissinna.  Hún mun kynna nokkur af vandamálum tengdum jafnréttismálum í Evrópu og hvaða tækifæri Evrópusambandið hefur að bjóða fólki og félagasamtökum sem hafa vilja til að bæta úr þeim.

Ragnar situr í stjórn AFS á Íslandi. Hann mun kynna Evrópusamstarf AFS skiptinemasamtakanna, regnhlífasamtökin EFIL og samstarf við ESB í ungmennaskiptum.

Sindri Snær er varformaður Landssambands æskulýðsfélaga. Hann mun fjalla um hagsmunabaráttu ungs fólks í Evrópu ásamt því að kynna Evrópusamstarf LÆF og starf European Youth Forum sem er Regnhlífarsamtökum landssamtaka æskulýðsfélaga og Alþjóðlegra æskulýðsfélaga sem starfa í Evrópu.

Una Guðlaug er formaður vinnuhóps um lýðræðisþátttöku ungmenna á vegum Bandalags íslenskra skáta. Hún mun fjalla um upplifun sína af ferðinni og tengja hana við verkefni sem hópurinn starfar að.

Þá munu fulltrúar frá Evrópu unga fólksins (e. Youth in Action) einnig kynna starf sitt og möguleika í styrkjum og samstarfi en áætlunin veitir styrki fyrir ungt fólk á aldrinum 13-30 ára og þá sem starfa með ungu fólki.