Í grein dagsins fjallar Bergur Ebbi Benediktsson, lögfræðingur, um fiskimið Íslands, áhrif aðildar á fiskveiðar Íslendinga og ótta íslenskra útgerðarmanna. Hér að neðan má lesa greinina í heild sinni.

Ég hef ekki trú á kommúnisma. Fyrsta orðið sem börn læra eftir að þau segja „mamma“ er „mitt“Þetta sagði Frank Zappa. Hann kvað þetta reynslu sína af því að vera foreldri. Fólk vill eiga hluti. Þegar það hefur eignast hluti þá vill það verja þá. Vissulega er þetta frumþörf sem við ættum ekki að gefa lausan tauminn – börn gera allskonar hluti sem eru ekki siðlegir fullorðnum eins og að hlaupa um allsber, spila á píanó án þess að kunna það og öskra á leikara í leikhúsi – en engu að síður held ég að við losnum aldrei við þessa þörf: að eiga hluti og verja eign okkar. Meira að segja Frank Zappa, sjálfur erkihippinn, hafði skilning á þessu. Það sem er búið að gefa einhverjum verður ekki svo auðveldlega tekið til baka.

Það liggur fyrir að þrátt fyrir að ákvæði laga tryggi að fiskimið Íslands séu „sameign þjóðarinnar“ þá er nýting þeirra og arður í höndum aðila sem starfa í greininni. Stundum fiskast vel og stundum illa en í heildina er fiskveiði ábótasöm. Ég tel það langsótt að tala um að ákveðnum aðilum hafi verið gefin þessi auðæfi. Rétturinn hefur skapast á löngu tímabili byggðu á reynslu, sérþekkingu og að lokum frjálsum viðskiptum. Yfirleitt hefur samfélagið verið velviljað útgerðarfyrirtækjum, en það hafa einnig verið tímabil þar sem þensla hefur skekkt gengi krónunnar og þannig rýrt virði fiskafurða. Eins og staðan er í dag er arðvænlegt að eiga stöndugt útgerðarfyrirtæki. Ég skil vel að eigendur og starfsmenn slíkra fyrirtækja vilji verja eign sína með öllum tiltækum leiðum, berjast gegn skattahækkunum og tryggja að lög verði ekki sett sem dragi einkarétt þeirra til baka. Hluti þess að eiga eitthvað er að verja það. Eftir því sem maður á meira því meira fórnar maður til að tryggja yfirráð sín yfir því. Þannig á að spila leikinn.

Líklega mun aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki hafa áhrif á fiskveiðar Íslendinga í hinu stóra samhengi. Sömu fyrirtæki munu áfram geta veitt jafn mikinn fisk eftir sama kerfi. Endanlegar ákvarðanir um heildarafla verða þó ekki lengur teknar af stjórnvöldum hér á landi. Það hræðir íslenska útgerðarmenn. Hvernig eiga þeir að tryggja að ekki verði teknar ákvarðanir sem skerði tekjur þeirra? Munu þeir þurfa að stofna hagsmunasamtök í öðru landi, verja hagsmuni sína á nýju tungumáli, skrifa greinar í ný blöð eða kaupa ný blöð? Það er vesen. En ég vorkenni þeim ekki. Meira að segja erkihippar vita að kommúnismi virkar ekki og að sama skapi eiga jafnvel frjálshyggjumenn að skilja að frumþörfum á ekki að gefa lausan tauminn. Fólk á rétt á að eiga hluti og verja eign sína en það sagði enginn að það ætti að vera auðvelt.

Ég tel enga þörf á að hneykslast á því að Morgunblaðið birti greinar í samræmi við hagsmuni eigenda sinna. Líklega myndi ég beita mér á sama hátt ef ég ætti jafn mikið undir og eigendur þess ágæta blaðs. Höfum samt hugfast að hagsmunir kvótaeigenda eru ekki þeir sömu og hagsmunir þorra Íslendinga. Ég tel að flestir geti verið sammála þeirri fullyrðingu enda er hún öfgalaus.