mörðurMörður Árnason, alþingismaður, skrifar áhugaverða grein um Evrópumálin, í Fréttablaðið í dag, fimmtudaginn 18. apríl 2013, þar sem hann fjallar meðal annars um nauðsyn þess að klára samningaviðræðurnar og kjósa um niðurstöðu þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mörður segir meðal annars:

„Margt er auðvitað óljóst enn þá um stöðuna eftir inngöngu okkar í Evrópusambandið ef af verður. Þess vegna erum við að semja. Og ýmislegt af kostum og göllum við aðild kemur ekki í ljós fyrr en á líður. Það er reynsla annarra þjóða sem inn eru gengnar, svo sem Svía og Finna, Eystrasaltsþjóðanna, nýfrjálsu ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu.

Margt er líka nokkurn veginn ljóst, og varðar ekki síst hag fjölskyldnanna, almennings í landinu. Með evrunni minnkar allur kostnaður í viðskiptum okkar við evrulöndin – vöruverð fer niður. Vextir hafa verið hér alltof háir fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Þeir lækka með inngöngu og evru, og líklega strax með tengingu krónunnar við evru. Innganga og evra mundi slá á verðbólgu með sífelldum hækkunum verðlags og launa. Verðtryggingin hverfur með evrunni, enda er verðtryggingin hækja sem hin veika króna notar til að halda sér uppréttri.

Það rennur ekki upp paradís á jörðu daginn sem við göngum í Evrópusambandið. Sem fyrr eru Íslendingar sinnar eigin gæfu smiðir. Fyrir venjulegt fólk verður hins vegar auðveldara að lifa, einfaldara að skipuleggja, meira öryggi við rekstur heimilisins.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að klára samningana og taka til þeirra afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vel má vera að gallar við aðild vegi upp á móti þessum kostum fyrir lífskjör venjulegs fólks – það ákveður þjóðin. Þeir sem vilja stöðva samningagerðina, sem er komin á lokastig – þeir eru á hinn bóginn að útiloka þessar kjarabætur án þess að menn hafi fengið að athuga málið. Ekki kjósa þá frambjóðendur í alþingiskosningunum í mánaðarlokin.“