Í grein dagsins fjallar Freyja Steingrímsdóttir, stjórnmálafræðinemi og varaformaður Ungra Evrópusinna, um hið nýja Borgarafrumkvæði Evrópu, sem sett var á laggirnar af Evrópusambandinu til þess að auka þátttökulýðræði borgara Evrópusambandsins. Greinina má lesa hér að neðan.

Allt frá stofnun Evrópusambandsins hefur verið rætt um hinn svokallaða lýðræðishalla innan sambandsins. Evrópusambandið er valdamikil stofnun og til þess að vald þess sé álitið lögmætt af þegnum þess þarf það að vera lýðræðislegt. Í dag er Evrópusambandið valdameira en nokkru sinni fyrr svo að lýðræðisvangaveltur ættu að vera í hámarki. Aftur á móti, þá virðast efnahagsörðugleikar í sambandinu hafa tekið yfir alla fjölmiðlaumfjöllun og mikilvæg málefni á borð við lýðræðishugsjónir, hafa verið settar til hliðar.

Þegar Lisbon sáttmálinn var í vinnslu voru flestir þeir sem komu að honum sammála um að Evrópusambandið þyrfti að svara kalli borgara sinna um aukið lýðræði innan sambandsins. Í sáttmálanum var kynnt til sögunnar nýtt fyrirbæri sem kalla mætti Borgarafrumkvæði Evrópu (European Citizen Initiative). Frumkvæðinu er ætlað að styrkja beina þátttöku borgara Evrópusambandsins þegar kemur að ákvarðanatöku innan sambandsins.

Nú styttist því í að borgarar innan Evrópusambandsins geti tekið höndum saman og beðið um að framkvæmdarstjórnin sendi inn lagafrumvarp um ákveðið mál, en hægt verður að skrá borgaralegt frumkvæði hjá framkvæmdastjórninni frá 1. apríl 2012. Til þess að framkvæmdarstjórn ESB taki ákveðið mál fyrir þarf að leggja fram milljón undirskriftir frá að minnsta kosti sjö mismunandi Evrópusambandsríkjum. Þetta hljómar kannski eins og mikill fjöldi fyrir okkur Íslendinga en í raun er þetta einungis 0,2% af íbúafjölda Evrópusambandsins – þannig að þetta er í raun sambærilegt því að 650 manns á Íslandi gætu gert hið sama. Ef þetta væri eins á Íslandi gætu til dæmis um þriðjungur stuðningsmanna Röskvu á Facebook skrifað nafn sitt á undirskriftalista um hækkun námslána og Alþingi yrði að setja málefnið á dagskrá.

Með borgarafrumkvæðinu hefur í fyrsta sinn verið lagður grunnur að yfirþjóðlegu þátttökulýðræði. Fyrir frumkvæðið var í raun bara framkvæmdarstjórnin sem hafði raunverulegt vald til þess að leggja fram lagafrumvörp en bæði Evrópuþingið og ráðherraráðið geta formlega beðið framkvæmdarstjórnina um að leggja fram frumvarp. Nú hafa evrópskir borgarar því réttindi á sama plani og tvær mikilvægustu stofnanir ESB.

Borgarafrumkvæði Evrópu er stórt skref í rétta átt að bættu lýðræði innan Evrópusambandsins að mínu mati. Lýðræðishallinn snýst að miklu leyti um vöntun á evrópsku samfélagi og almennum samhug evrópskra borgara, en frekari grundvöllur fyrir beina þátttöku óháð ríkisfangi gæti þjappað Evrópubúum saman.