Ástæða er til þess að fagna enn einum merkum áfanga í vegferð íslensku þjóðarinnar frá hinum óæðri bekk til öndvegis meðal annarra Evrópuþjóða. Vonandi verður 27. júlí 2010 ein af þeim dagsetningum sem fara í sögubækur þjóðarinnar þegar þroskasaga hennar verður rakin.

Upphaf formlegra samningaviðræðna staðfestir vilja Alþingis sem birtist í þingsályktunartillögu þess frá 16. júlí 2009.  Sömuleiðis staðfestir upphaf viðræðna vilja þjóðarinnar sem birtist í skoðanakönnunum síðustu 10 ára fyrir ályktun Alþingis.

Í hönd fara tímar erfiðra samninga við Evrópusambandið og aðildarríkja þess um aðildarskilmála. Öllum er ljóst hvaða atriði skipta þar mestu máli – ekki síst í þjóðarsálinni þar sem tilfinningar bera skynsemina og raunhæft hagsmunamat oft ofurliði. Samningamenn Íslands eru því ekki í öfundsverðri stöðu og eiga örugglega við ramman reip að draga. Því ríður á að allir leggist á eitt að hjálpa til við að ná sem hagstæðustum samningi.

Mikilvægt er að sú umræða sem fer í hönd á meðan samningar standa og ekki síður þegar samningurinn liggur fyrir verði málefnaleg og taki mið af heildarhagsmunum en ekki sérhagsmunum; langtímahagsmunum en ekki skammtímahagsmunum;  framtíðinni en ekki fortíðinni; hagsmunum almennings en ekki stjórnmálanna. Á endanum mun slík umræða leiða til farsællar niðurstöðu.