Í grein dagsins fjallar Árni Björn, húsgagnasmíðameistari, um mikilvægi Evrópusambandsins, sérstaklega þegar kemur að sameiginlegum reglugerðum um efnahagsstjórn. Greinina má lesa hér fyrir neðan.

Aldrei hefur hefur þörfin fyrir Evrópusamband verið meiri en um þessar mundir. Þrátt fyrir ráðaleysi um tök á efnahagi vissra meðlima Evrópusambandsins undanfarin ár, er betra seint en aldrei að koma á reglu til þjóða um efnahagslegt jafnvægi.

Ef hugað hefði verið að því undanfarinn áratug væri ekki komið svona fyrir þjóðum sem hafa skuldsett sig langt umfram það sem mögulegt er að standa við. Þetta ástand sýnir augljóslega þörfina fyrir sameiginlega reglugerð um jafnvægi í efnahagsmálum.

Þessi skuldsetning hefur síðasta áratug verið alveg stjórnlaus í löndum eins og Írlandi, Spáni og Grikklandi og reyndar fleiri löndum. Samstaða um sameiginlegan stöðugleika  í efnahagsmálum er nauðsynleg Evrópusambandinu til þess að geta horft til framtíðar.

Vandinn er hvernig á að leysa atvinnleysið í löndunum með því frjálsa markaðskerfi sem er við líði. Það gefur auga leið að kaupmáttur þarf að vera til staðar til að jafnvægi náist í atvinnumálum.

Markaðskerfið þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Þá er ég einna helst að tala um nýsköpun og tækifæri til framleiðslu. Eitt sem hefur staðið fyrir aukinni framleiðslu er að fjölmörg  fyrirtæki hafa flutt framleiðslu sýna til Kína sem er mikið vandamál. Þar kemur í ljós að það vantar alþjóðlegar viðskiptareglur sem koma í veg fyrir mikið ójafnvægi  hvað varðar framleiðslukostnað og getu.

Þetta er vandamál sem verður að taka á innan Evrópusambandssins. Ekki geta einstök ríki gert neitt í slíkum málum og því er sambandið nausynlegur  aðili til þess að taka á þessu.

Hið mikilvæga þróunarstarf sem Evrópusambandið stundar er stórmerkilegt og á sér ekkert fordæmi í heiminum. Þróun þessi er um fjölmarga hluti s.s reglugerðir og  lagasetningar á fjölmörgum sviðum sem eru til að bæta líf fólksins og tryggja nýsköpun í atvinnumálum. Þessi samstaða er um frjálst markaðskerfi og um frelsi fólks almennt og kemur í veg fyrir spillingu og glæpi.

Þessi samstaða er gríðarlega mikilvæg í nútíma þjóðfélögum þar sem mikil þróun hefur orðið á mörgum sviðum mannlífssins. Því verður sambandið að koma á stöðugleika sem verður til þegar þjóðirnar reka sitt efnahagskerfi á sjálfbæran hátt.