Fyrir stuttu hófst útgáfa á nýju vikublaði á Akureyri er kallast Akureyri – vikublað. Í nýjasta tölublaðinu sem kom út í dag birtist skemmtileg grein eftir Berg Ebba Benediktsson, lögfræðing og uppistandara í Mið-Ísland. Greinin ber nafnið „Möppudýrin“ og fjallar um þær hugmyndir sem margt ungt fólk hefur um starfsmenn Evrópusambandsins, eða „möppudýrin“ eins og þeir eru stundum kallaðir.

Í greininni segir meðal annars:

„Hver eru annars möppudýrin? Væntanlega starfsfólk Evrópusambandsins. Og hvað gera þessi dýr? Hanga á skrifstofum allan daginn og taka ákvarðanir um hallagráðu banana og leyfilega fituprósentu íslensks lambakjöts, þ.e. ef þau eru ekki of upptekin við að kaupa sér ný grá ullarjakkaföt og borða schnitzel í hádegisverðarboði þar sem jafnframt er rætt um hvernig sé best að arðræna smáþjóðir. Ef bara brot af þessu er satt þá virðist þetta fólk allavega lifa tíu sinnum svalara lífi en ég eða nokkrir vinir mínir.

En því miður er þetta ekki satt. Ég held að hjá Evrópusambandinu starfi bara venjulegt tómatsósulyktandi fólk eins og við þekkjum það best. Fólk sem gerir það sama og venjulegir Íslendingar, hangir á netinu í vinnunni, skiptir um profile-myndir á Facebook, kvartar yfir dagskránni á RÚV (Deutsche Rundfunk, DR1 o.s.frv.).“

Greinina er hægt að nálgast í heild sinni á pdf útgáfu blaðsins og er grein Berg Ebba á blaðsíðu 10: http://www.akureyrivikublad.is/wp-content/uploads/2011/10/Akureyri-9.-tbl..pdf