Á vef Viðskiptaráðs Íslands má finna eftirfarandi tilkynningu:

Í tilefni endurreisnar Fransk-íslenska viðskiptaráðsins, hefur einn af höfundum evrunnar verið kallaður á teppið. Ráðið býður til morgunverðarfundar í húsakynnum Arion banka, Borgartúni, föstudaginn 21. september kl. 08:15-10:00.

Dagskráin hefst með stuttum stofnfundi Fransk-íslenska viðskiptaráðsins. Fundarstjóri stofnfundarins er Hreggviður Jónsson. Opnunarerindi á stofnfundinum verða í höndum Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra og Marc Bouteiller, sendiherra Frakklands á Íslandi.

Framsögumenn á morgunverðarfundinum verða:

  • Yves-Thibault de Silguy, fyrrverandi framkvæmdarstjóri hjá Evrópusambandinu og einn af hugmyndasmiðum af hinni sameiginlegu mynt ESB
  • Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands
  • Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis
  • Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og frumkvöðull

Yves-Thibault de Silguy var framkvæmdastjóri gjaldmiðilsmála hjá ESB árin 1995-1999 þegar grunnurinn að evrusamstarfinu var lagður. Það er því ekki að ósekju sem hann hefur verið kallaður „faðir evrunnar“, meðal annarra. Aldrei hefur reynt jafn mikið á evrusamstarfið og nú og velta því margir fyrir sér hvort upptaka evru á Íslandi sé raunhæfur kostur fyrir atvinnulífið.

Fundarstjóri verður Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins.