Evrópusinnar fengu fregnir af liðstyrk frá óvæntri átt í gær og það ekki af verri endanum, því nýkjörinn borgarstjóri bar skilaboð til þjóðarinnar frá ekki síðri manni en sjálfum Múmínpabba að það væri best fyrir Íslendinga að ganga í ESB. Múmínpabbi sagði allt hefði breyst til batnaðar í Múmínálfaborg eftir að Finnland gekk í ESB.  Þetta kom fram í viðtali við Jón Gnarr borgarstjóra í tímaritinu Grapevine, en Jón heimsótti nýverið Múmínborg í Finnlandi.

Auk þessu ánægjulegu meðmæla frá Múmínpabba, bætti formaður LÍÚ um betur og sagði í viðtali í Síðdegisútvarpinu í gær að Íslendingar ættu að klára samningaviðræðurnar við ESB og reyna að: ,,gera eins góðan samning og við getum fyrir Íslands hönd“.   Ljóst er að þessi viðsnúningur útgerðarmanna er mikill því fram að þessu hafa þeir verið hörðustu andstæðingar ESB aðildar – og þess að Ísland hefji aðildarviðræður við ESB.

Þetta eru ánægjuleg tíðindi enda er það augljóst að hagsmunir allra Íslendinga snúast um að við tryggjum að við náum sem bestum samningi við ESB og ekkert sem segir að það sé ekki hægt þegar kemur að sjávarútvegsmálum eins og kemur fram til dæmis hér og hér.

Svo getur það ekki skemmt fyrir þegar málsmetandi menn eins og Múmínpabbi mælir með ESB.

Orðrétt sagði formaður LÍÚ: ,,Nú held ég að það sé ekki raunhæft að þetta aðildarferli verði dregið til baka. Ég held að menn verði að ganga alla leið. Það er mikilvægast fyrir okkur að reyna að gera eins góðan samning og við getum fyrir Íslands hönd. Við vitum náttúrlega núna að þá eru menn á móti, en það getur sveiflast. Og þar af leiðandi er það algert lykilatriði að menn reyni að ná ítrustu kröfum sínum fram,“.