Í grein dagsins fjallar Einar Páll Svavarsson, stjórnmálafræðingur, um evruna, vanda hennar, ástæður vandans og þær lausnir sem nú er verið að vinna að. Þá fjallar Einar Páll einnig um aðildarviðræður Íslands í ljósi þess sem á hefur gengið undanfarið. Greinina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Þegar nokkur ríki Evrópusambandsins tóku þá ákvörðun á sínum tíma að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil gáfu þau sér nokkurra ára aðlögunartíma til að ná nauðsynlegum grunnmarkmiðum í stjórn efnahagsmála.  Þessi markmið voru þungamiðjan í Maastricht-sáttmálanum.  Þau mikilvægustu voru hallalaus fjárlög, hámark á skuldir ríkisins,lág verðbólga og lágir vextir. Allt efnahagsleg stjórntæki sem þóttu nauðsynleg til þess að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum þátttökuríkjanna og trúverðugleika fyrir nýjan gjaldmiðil og sameiginlegan seðlabanka.  Þessi markmið áttu að vera ófrávíkjanleg.  Fyrstu mistökin þegar aðlögunartímanum lauk og upptaka sameiginlega gjaldmiðilsins hófst fólust í eftirgjöf við þessi markmið.  Meðal annars gagnvart Grikklandi. Í tímans rás jókst síðan almenn eftirgjöf og kæruleysi gagnvart þessum markmiðum með þeim afleiðingum sem við erum að sjá í dag.

Ákvæði Maastricht-sáttmálans

Hugmyndasmiðir og framkvæmdaaðilar hins nýja gjaldmiðils evrunnar vissu að fátt er hollara fyrir heimili allra landa og líf hins almenna borgara en lítil verðbólga og lágir vextir. Forsendur sem auðvelda þeim sem velkjast um í hinu daglega lífi að koma þaki yfir höfuðið og versla nauðsynjar á ásættanlegu verði.  Þeir vissu líka að sömu markmið eru afar mikilvæg fyrir atvinnulífið og fyrirtækin. Þeim var ljóst það meginverkefni stjórnmálamanna að hafa stjórn á þessum mikilvægu efnahagslegu breytum,  m.a. með því hafa taumhald á skuldsetningu ríkissjóðs og varast að fjármagna fjárlagahalla og viðskiptahalla með lánum.  Þess vegna voru ofangreind markmið sett í Maastricht-sáttmálann.

Stjórnmál í þágu almennings eða sérhagsmuna

Sumir stjórnmálamenn halda að hlutverk þeirra sé að útdeila gæðum og uppfylla drauma.  Aðrir gera það að hlutverki sínu að tala fyrir þröngum sérhagsmunum sem fara ekki endilega saman við hagsmuni almennings.  Þetta er misskilningur sem lengi hefur loðað við stéttina og lagt grunninn að miður bragðgóðum stjórnmálahugtökum eins og pólitísk spilling, fyrirgreiðslupólitík, atkvæðakaup, kjördæmapot og bitlingar.  Slíkir stjórnmálamenn munu seint hafa skilning eða áhuga á margnefndum ákvæðum  Maastricht-sáttmálans.   Þeir vilja spenna ríkisútgjöld til hæstu hæða og smíða sýndarveruleika í þeim tilgangi að tryggja eigið brautagegni í næstu kosningum eða brautagegni þeirra sérhagsmuna sem þeir standa fyrir.  Þeir útdeila hér og þar með klókindum og leynd úr sameiginlegum sjóðum sem jafnvel þarf að fjármagna með lánum.  Með þessum hætti fara stjórnmálin niður í myrkvaða skolplögn spillingar í stað þess að vera sýnileg á gagnsæju yfirborði . Einmitt þannig snérust stjórnmálin í höndum hægri manna á Ítalíu og vinstri manna á Spáni.  Þannig náði hvorki hin framsækna frjálshyggja hægri manna né hin göfuga jafnræðis- og velferðarhugmyndafræði vinstri manna að vernda almenning fyrir afglöpum stjórnmálamanna. Þetta er einmitt ástæðan fyrir vanda evrunnar og þeim vanda sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir.  Stjórnmálamenn sem eru að stjórna innistæðulausu draumferðalagi og hafa komið sér þægilega fyrir við kjötkatla hins opinbera en reynast svo með öllu óhæfir til að stjórna.  Óhæfir til að stjórna þýðingamestu breytunum í efnahag ríkjanna sem fá afleiðingarnar í hausinn í formi lækkunar á lánshæfi og hækkandi vöxtum.

Þáttur fjármálageirans í smíði vandans

En auðvitað þarf tvo til við smíði svona vanda. Varla væri hann svona stórbrotinn ef engin hefði lánað Ítölum, Spánverjum, Írum og Grikkjum fé.  En það voru einmitt franskir, enskir, þýskir og alþjóðlegir bankar sem m.a. lánuðu þeim trilljónir á trilljónir ofan.  Auðvitað mátti öllum vera ljóst, báðum megin borðsins, að á einhverjum tímapunkti væru hin göfugu ákvæði Maastricht-sáttmálans um efnahagsstjórn komin í uppnám hjá mörgum þessara yfirskuldsettu ríkja.  En það var ekki fyrr en afborgunarsúlur næstu mánaða í línuritinu yfir endurgreiðsluskuldbindingar þjóðanna voru orðnar svo nálægar og háar að endurfjármögnun var óhugsandi nema með stórfelldri hækkun á vöxtum og sögulegri endurskilgreiningu á lánshæfismati. Þar með var vandi sem var drifinn áfram af stjórnmálamönnum sem nýttu ríkissjóð til atkvæðakaupa annars vegar og fjármálstofnunum sem var drifinn áfram af sölu- og umboðslaunumhins vegar orðin að vandamáli heillar heimsálfu.Ef ekki tækist fljótlega að endurfjármagna skuldbindingar Ítalíu ,  Spánar og annarra skuldugra ríkja á ásættanlegum vöxtum blasti ekkert minna við en algjört hrun.  Hinu má ekki gleyma að á sama tíma tóku mörg ríki Evrópusambandsins ákvæði Maastricht-sáttmálans alvarlega og lentu ekki í vanda né létu ginnast af ábyrgðarleysi fjármálageirans.  En með þessum glæfralegu gjörningum og frávikum frá reglum sameiginlega gjaldmiðilsins höfðu ábyrgðalausir stjórnmálamenn og gírugir bankamenn dregið þá inn í ábyrgðina.  Ekki aðeins Evruríkin heldur og mörg önnur ríki sem standa utan samstarfsins um evruna, utan Evrópusambandsins og utan Evrópu.

Evrópusambandið þurfti að hysja upp um sig fyrr eða síðar

Þetta er vandinn sem fjallað er um í fjölmiðlum í dag.  Það sem auðvitað ber hæst í þeirri umræðu eru viðbrögðin.  Vandinn er til staðar og birtist í breytingu á lánshæfi þeirra ríkja sem ásamt fjármálafyrirtækjum settu allt í uppnám. Með lækkun á lánshæfismati ríkja verður ótti fjármálageirans við endurgreiðslugetu þeirra öllu yfirsterkara.  Jafnvel yfirsterkari voninni um persónulegan skyndigróða gegnum sölu- og umboðslaun og þeir hætta að þora að lána. Og með breytingu á lánshæfi ríkjanna hækka vextir á lánum til þeirra og skrið efnahagslífsins færist í átt að kreppu og stórbrotnum vandamálum.   Þetta er vandinn sem Evrópusambandið er að beina kröftum sínum að í dag.  Skammtímalausnin er að freista þess að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Seðlabanka Evrópu til að smíða einhverskonar fyrirkomulag með lægri vöxtum og þannig plástra mistökin við að framfylgja ekki ákvæðum Maastricht-sáttmálans.  Í þeim skilningi er Evrópusambandið að hysja upp um sig. Hugsanlega ættu sum þeirra ríkja sem brutu gegn umræddum ákvæðum að íhuga eigin gjaldmiðil og úrsöng úr myndbandalaginu þar sem þau virðast hvorki hafa pólitískt né siðferðislegt þrek til að vera með. Koma svo aftur inn í myntbandalagið þegar þau hafa náð fullum lýðræðislegum þroska.  Langtíma lausnin er að herða á ákvæðum Maastricht-sáttmálans og setja upp miklu harðara eftirlit með ríkisfjármálum aðildarríkjanna.  Ekki ósvipað og þekkist í samskiptum fjármálaeftirlita og ábyrgra fyrirtækja í fjármálastarfsemi. Markmiðið er að koma í veg fyrir að ábyrgðalausir stjórnmála- og fjármálamenn stjórni Evrópu út frá annarlegum hagsmunum og komi allri álfunni aftur í þann vanda sem við erum að horfa uppá í dag.  Allir vita jú að í lokin verður reikningurinn endanlega sendur inn um lúguna hjá hinum almenna borgara sem og með auknum skattaálögum á einstaklinga og fyrirtæki.  Eitthvað sem við Íslendingar ættum að geta borið vitni um.

Hvað gerist ef allt fer á versta veg?

Auðvitað er það umhugsunarefni fyrir okkur öll hvað gerist ef Evrópusambandið leysist upp. Ef stórar þjóðir eins og Ítalía og Spánn verða gjaldþrota og fjöldi banka fer á kúpuna um veröldina víða.  Líklegasta niðurstaðan væri endurupptaka fjölmargra horfinna gjaldmiðla, lokun þjóðríkja inni í margs konar tollamúrum, gjaldeyrishöftum og öðrum þeim höftum sem tilheyra fráhvarfi frá sameiginlegum markaði í nafni styrkingar á samkeppnisstöðu.  Einangrunarstefna sem aftur er virkilega frjór jarðvegur fyrir þjóðernishyggju og þröngsýni sem auðveldar ríkjum að finna ástæðu til að skakklappast inn í hernaðarleg átök við nágranna sína.

Nauðsyn þess að halda í lýðræðis- og markaðsskipulagið

Til þess að halda uppi sameiginlegum markaði og sameiginlegum gjaldmiðli til hagsbóta fyrir allan almenning og stærsta hluta atvinnulífsins í Evrópu þarf að virða ákveðnar grundvallarreglur.  Þær reglur eru skýrar og þekktar og eru í Maastricht-sáttmálanum.  Ekki er hægt að láta óábyrga stjórnmál- og bankamenn leika lausum hala með atkvæðagræðgi og peningagræðgi að leiðarljósi.  Það er vísasta leiðin til að glata því áhugaverða skipulagi sem samtvinnun lýðræðis og markaðsþjóðfélagsins hefur skapað á mörgum áratugum í Evrópu. Vandamálið er ekki evran heldur skortur á aðhaldi við að fara eftir reglum Maastricht-sáttmálans.   Með því að auka aðhald og setja upp ströng viðurlög við brotum ríkisstjórna á þessum reglum er verið að vernda okkur almenna borgara og fyrirtæki okkar gegn óábyrgum og spilltum stjórnmálamönnum og óábyrgum og gráðugum bankamönnum.  Besta vörn okkar gegn slíku fólki í dag er einmitt evran.

Óviðeigandi aðför íslenskra stjórnmálamanna að hinu lýðræðislega ferli aðildarviðræðna

Augljóst má vera fyrir alla sem fylgjast með evrópskum stjórnmálum og þróun Evrópusambandsins að ekkert hefur gerst sem kallar á endurmat eða endurskoðun á ferli aðildarumsóknar Íslands.  Ef allt fer á versta veg og Evrópusambandið leysist upp og fellur um koll er auðvitað sjálfhætt.  En ef sameiginleg ákvörðun og ráðstafanir 26 af 27 ríkjum Evrópusambandsins ná fram að ganga hefur ekkert breyst gagnvart okkur Íslendingum.  Þær ráðstafanir fjalla í aðalatriðum um viðurlög við frávikum frá ákvæðum Maastricht-sáttmálans og ef vel tekst til á næstu vikum gera þær Evrópusambandið aðeins áhugaverðara fyrir okkur ef eitthvað.  Það er óásættanlegt fyrir okkur almenna borgara landsins að stjórnmálamenn hér á landi séu sífellt að ræða um aðför að því lýðræðislega ferli sem aðildarumsóknin er.  Hvort sem tilefnin eru lítil eða stór.  Samningaferli sem við eigum að klára á þeim lýðræðislega endapunkti sem þjóðaratkvæðagreiðsla um útkomuna er. Þá höfum við forsendur til að velja milli já og nei.   Þegar samningur liggur fyrir. Annað er hrokafullt og óviðeigandi inngrip.