Í grein dagsins svarar Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir grein Guðna Ágústssonar fyrrverandi ráðherra, sem birtist þann 17. september í Fréttablaðinu sem bar heitið „Nú ber Evrópusambandið peninga í áróðurinn“. Sigurlaug Anna er stjórnmálafræðingur, varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði og fv. formaður Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar. Greinina má lesa hér að neðan.

Þann 17. september sl. skrifaði Guðni Ágústsson fv. ráðherra, grein í Fréttablaðið sem bar heitið: „Nú ber Evrópusambandið peninga í áróðurinn.“ Við lestur greinarinnar má skilja sem svo að „upplýsingaherferð ESB“  hér á landi sé hið versta mál og að Íslendingum hafi verið talin trú um að aðildarviðræðurnar snúist um eitthvað allt annað en þær gera. Guðni hefur flest á hornum sér í greininni og hvergi sést glitta í hinn víðfræga húmor sem hann er svo þekktur fyrir.  Ég held að flestum ætti að vera afstaða Guðna til Evrópusambandsins ljós. Hann hefur fyrir löngu gert upp hug sinn, ólíkt um 20% af þjóðinni sem hefur ekki gert upp hug sinn til málsins.

Miðlun upplýsinga er lykilþáttur í upplýstri ákvarðanatöku á borð við þá sem íslensk þjóð mun standa frammi fyrir þegar kemur að því að kjósa um aðildarsamninginn. Ýmsar ástæður eru fyrir unga sem aldna Íslendinga að þekkja Evrópusambandið. Það hefur áhrif á líf okkar á marga vegu hvort sem Ísland verður aðildarþjóð eða ekki.  Fræðsla er almennt af hinu góða.

Það að ganga í Evrópusambandið er ekki eins og að ganga í hver önnur félagasamtök.  ESB er samstarfsvettvangur tuttugu og sjö fullvalda þjóða sem taka sameiginlega ákvarðanir um ýmislegt sem varðar þær, beint og óbeint, í gegnum stofnanir sambandsins.

Ísland verður ekki aðili að Evrópusambandinu nema þjóðin samþykki aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Samninganefnd Íslands vinnur að því hörðum höndum að ná bestu mögulegu niðurstöðu í viðræðunum fyrir íslensku þjóðina.  Þegar að atkvæðagreiðslunni kemur skiptir máli að upplýsingar berist til fólks.  Hlutdrægar upplýsingar, bæði með og á móti sem og hlutlausar upplýsingar.

ESB styrkir ýmislegt tengt aðildarumsókninni en krefst jafnframt mótframlags umsóknarríkis.  Sem dæmi um kostnað við umsóknarferlið má nefna þýðingar á reglum og samningum sambandsins.  Í mörgum tilfellum skapar þessi vinna einnig störf hér á landi. Þá hafa samtök á borð við Heimssýn, Já Ísland, Evrópuvaktin og einnig Háskóli Íslands fengið styrki frá Alþingi til þess að vinna að upplýsingamiðlun.

Á vef utanríkisráðuneytisins er að finna svæði sem heitir: „Umsókn Íslands um aðild að ESB“.  Þar er að finna allar helstu upplýsingar um gang aðildarviðræðnanna, samningskaflana, upplýsingar um samninganefndina, samningahópana og hlutverk þeirra.  Ég er viss um að Guðni geti fundið þar gagnlegar upplýsingar.

Hópurinn í þjóðfélaginu sem er á móti aðild að ESB virðist vera mjög einsleitur.  Hann er bæði á móti aðild og aðildarviðræðum og er fullkomlega sannfærður um ókosti sambandsins.  Þessu fólki verður ekki haggað, það fæst ekki til að fallast á að nokkrar af breytunum í Evrópusambandsumræðunni eru óþekktar og munu ekki liggja fyrir fyrr en samningaviðræðunum er lokið.  Á meðan niðurstöður viðræðnanna liggja ekki fyrir er því ekki með nokkru móti hægt að fullyrða um hvort aðildin er fýsilegur kostur fyrir Íslendinga eða ekki.

Stundum heyrast rök andstæðingana sem segja að það sé svo dýrt að standa í þessum aðildarviðræðum og stundum heyrist að ESB sé að ausa peningum í áróðurinn, bæði virðist vera jafn slæmt.

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig andstæðingum ESB finnist yfirleitt að sambandið eigi að starfa?  Ég geri ráð fyrir því að þeir sem eru á móti aðild Íslands að sambandinu fallist þrátt fyrir allt á tilvist ESB.  Ég get ekki skilið af hverju það telst ekki eðlilegt að ESB komi til móts við umsóknarríki með þeim hætti að aðstoða við upplýsingagjöf og fræðslu um eðli og starfsemi sambandsins?  Það má kalla hlutina öllum mögulegum nöfnum en það hljóta allir vel meinandi aðilar að átta sig á því að þetta er eðlilegur hluti af umsóknarferli sem Alþingi Íslendinga samþykkti að leggja af stað í.