Íslendingar náðu fullveldi sínu 1. des. 1918 og hafa stoltir haldið því síðan, þar til þær aðstæður voru skapaðar að fjárglæframenn fengu svigrúm til þess að leika lausum hala sem leiddu yfir okkur kerfishrun. Efnahags- og peningastefna sem þeir mótuðu hefur leiddi til þess að íslendingar glötuðu efnahagslegu fullveldi og nágrannaþjóðir okkar neituðu að hjálpa okkur nema í gegnum AGS.

53% af viðskiptum Íslands fara fram í Evrum, þannig að liðlega helmingur gengisáhættu íslendinga hverfur við upptöku evru. Norska krónan er með 4% af viðskiptum okkar dollarinn 11% og Kanadadollar 1%. En sumir hafa nefnt þessar myntir til þess að komast hjá því að ræða þessi mál á málefnalegan hátt og drepa vitrænni umræðu á dreif.

Innganga í ESB og upptaka evru er ekki skyndilausn eins og NEI-menn hafa haldið fram. Hún er nauðsynleg framtíðarlausn ef við ætlum að losna við óábyrga efnahagsstjórn, þar sem mistök íslenskra stjórnmálamanna hafa endurtekið verið leiðrétt með því að sveifla krónunni með skelfilegum afleiðingum fyrir launamenn. Meiri verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag.

Árið 1951 stofnuðu Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland til samvinnu í þungaiðnaði sem gekk mun lengra en gengur og gerist í milliríkjasamningum. Það var undanfari ESB. Þá var verið að undirbyggja framtíð og komast úr vítahring styrjalda og tryggja frið. Þetta samstarf þróast og þann 1. jan. 2002 var Evran tekin í notkun. Hvatinn henni var að tryggja efnahagslegt mótvægi við BNA og tryggja samkeppnistöðu og auka með því atvinnu.

Þetta hefur heppnast mun betur en nokkur gerði ráð fyrir og er Evran orðin ein af megingjaldmiðlum heimsins. Ítalir eru ekki í ESB til þess að fá evru, þeir gerðu það til þess að tryggja frið, bæta atvinnuástand og ekki síður til þess að losna undan fáránleika, lýðskrum og spillingu sinna stjórnmálamanna. Hjá okkur gildir hvort tveggja ástæðan, en þó fyrst og síðast að ná efnahagslegu fullveldi.

Ef við skiptum um mynt mun áhættuálag Íslands lækka töluvert. Það munar gríðarlega um hvert prósentustig í vöxtum eins og komið er fyrir Íslandi með hinar svimandi háu skuldir. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

Íslenska krónan er við hlið evrunnar eins og korktappi við hlið skips af stærstu gerð. Örgjaldmiðilinn var auðveld bráð á spilaborðinu þar framkallaðar voru miklar sveiflur og auðmenn högnuðust enn meir á meðan venjulegar fjölskyldur bjuggu við hækkandi verðbólgu og vexti vegna þessa ástands.

Sveiflur krónunnar hafa leitt til þess að sparnaður og aðgát í fjármálum er íslendingum ekki eðlislægt eins og komið hefur fram í könnunum. Fjármálalæsi íslendinga er ákaflega lágt, borið saman við nágrannaþjóðir okkar. Það mun reynast vonlaust að laga það á meðan við búum við örgjaldmiðil.

Danmörk er að greiða 1 – 1,5% hærri vexti fyrir það að vera með danska krónu í stað evru. Það liggur fyrir að við munum greiða a.m.k. 3,5% aukalega hærri vexti á meðan við höldum krónunni. Vextir í Grikklandi féllu úr 30% í 4% á nokkrum árum eftir að þeir gengu í ESB.

Guðmundur Gunnarsson form Rafiðnaðarsambands Íslands