Samkvæmt Bændablaðinu hefur bændum í Finnlandi fækkað um helming frá því að landið gekk í Evrópusambandið. Samkvæmt úttekt Vísbendingar hefur norskum bændum fækkað heldur meira á sama tíma og þróunin virðist hafa verið svipuð hér á landi.

Vakin er athygli á þessum upplýsingum í frétt í Fréttablaðinu í dag en þær eru góð áminning þess að höfnun þjóðar á Evrópusambandsaðild er enginn trygging þess að samfélagið standi í stað.

Yfirgnæfandi líkur eru á því að störfum í íslenskum sjávarútvegi og landbúnaði muni halda áfram að fækka á næstu árum og áratugum, líkt og  undafarin ár og áratugi, óháð því hvort Íslendingar gangi í ESB eða ekki.

Ný störf þurfa að skapast á öðrum vettvangi. Einn af ávinningunum við aðild Íslands að ESB er sá að hér skapast stöðugra rekstrarumhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem er sambærilegt við það umhverfi sem slík fyrirtæki njóta í nágrannalöndunum. Stöðugur gjaldmiðill og lægri vextir munu þó ekki bara nýtast þessum fyrirtækjum heldur líka þeim sem starfa í sjávarútvegi og landbúnaði.