Í grein dagsins fjallar Leifur Björnsson, rútubílstjóri og leiðsögumaður, um það hvers vegna ESB er betra fyrir alla, sama hvar þeir eru staddir á lífsleiðinni. Greinina má lesa hér fyrir neðan.

Fyrir unga fólkið er það grundvallaratriði að lækka hér á landi fjámagnskostnað.  Það er ljóst að göngum við ekki í ESB gætum við setið upp með varanleg gjaldeyrisshöft og verðtryggingu. Það að losna við krónuna og verðtrygginguna þýðir til lengri tíma litið um allt að 30% kaupmáttaraukningu fyrir almenning. Það sama á við um öll minni fyrirtæki sem ekki eru með alþjóðlega starfsemi.

Göngum við í ESB munum við hinsvegar í fyllingu tímans eiga kost á húsnæðislánum á svipuðum kjörum og frændur okkar Danir, óverðtryggð lán með innan við 5% vöxtum. Á árunum 1996 til 2007 hækkaði húsnæðissverð á höfuðborgarsvæðinu 130% meira en kaupmáttur meðallauna eftir skatt. Nú  þremur og hálfu ári eftir hrun er fasteignaverð 100% hærra miðað við kaupmátt en það var árið1996, en ein aðal ástæðan er skortur á fjárfestinga tækifærum hér innanlands sem heldur uppi verði á fasteignum.  Með ESB aðild, afnámi gjaldeyrisshafta og eðlilegum fjárfestinga tækifærum ætti eðlileg leiðrétting og eðlilegt samhengi milli kaupmáttar og fasteignaverðs að geta myndast án þess að setja bankakerfið á hliðina á nýjan leik.

Við núverandi aðstæður er því ljóst að ungt fólk innan við þrítugt á erfiðara með að koma sér upp þaki yfir höfuðið en hvort heldur sem er, foreldrar þess eða afar og ömmur.

Fólk sem er í þeirri stöðu að vera komið yfir miðjan aldur á fasteignir sínar skuldlausar og kannski eitthvað sparifé í banka mun þó líka hagnast á ESB  aðild. Eins og staðan er í dag er lítið hægt að ávaxta sparifé. Fáir treysta  íslenskum hlutabréfamarkaði eftir hrun þannig að það sem fólk getur gert er að geyma sparifé sitt á bankabókum sem í flestum tilfellum bera lægri vexti en sem nemur verðbólgunni og þar fyrir utan þarf að greiða 20% fjármagnstekjuskatt af neikvæðri ávöxtun. Eða það getur keypt sér íslensk ríkisskuldabréf sem telst ekki mjög örugg fjárfesting.

Það er ljóst að þessi hópur mun hagnast á ESB aðild ekki síður en unga fólkið þar sem afnám gjaldeyrisshafta og í fyllingu tímans upptaka evru mun gera þessum hópi kleift að fjárfesta sparifé sitt ekki bara á Evrópska efnahagssvæðinu heldur líka út um allan heim.

Íslenskir lífeyrissjóðir munu geta ávaxtað fé sitt út um allan heim sem er nauðsynlegt til að tryggja fólki lágmarks viðurværi í ellinni. Núverandi ástand þar sem lífeyrissjóðirnir geta eingöngu fjárfest innanlands er dæmt til að búa til eignabólur sem síðan springa með tilheyrandi tjóni og skerðingu lífeyrissréttinda.

Allir sem ferðast til ESB landa verða sterklega varir við hvað vöruúrval  í matvöruverslunum er miklu meira en hérna á Íslandi . Í nóvember síðastliðnum var sá er hér heldur á penna staddur í ESB landinu Tékklandi. Árið 1989 braust Tékkland undan kommúnismanum og raunar upplifðu margir Tékkar kommúnismann sem Rússneskt hernám. Árið 1990 var vöruúrval í Tékklandi lítið eins og í öðrum nýfrjálsum löndum sem voru að losna undan oki kommúnismans. Í dag er vöruúrval í matvöruverslunum í Tékklandi áberandi meira og betra en á Íslandi.

 Núverandi  landbúnaðarkerfi á Íslandi  með miklum ríkisafskiptum, fákeppni og höftum, gerir það að verkum að matvöruverð er hærra en það þyrfti að vera, staða bænda er verri en hún þyrfti að vera og vöruúrval í matvöruverslunum er miklu minna en það þyrfti að vera. Þetta myndi allt breytast smám saman til hins betra ef við gengjum í ESB. Öllum Íslendingum til hagsbóta.

Ég hef eingöngu tæpt á nokkrum atriðum sem ég tel að muni verða bæði fólki og fyrirtækjum til hagsbóta göngum við í ESB. Mikilvægt er að að horft sé til heildarhagsmuna í ESB umræðunni í stað þess að ræða málin eingöngu út frá mjög þröngum sérhagsmunum.