Það er áhugavert að skoða umræðu síðustu daga og setja hana í samhengi við hvers vegna aðild að ESB getur orðið Íslandi mjög farsæl leið ef landsmenn kjósa svo.

Í morgunútvarpinu í fyrradag sagði stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann að valkostur Íslendinga væri í raun að gera upp við okkur hvort við vildum vera í Evrópusamstarfinu eða ekki: ,,Þeir (Íslendingar) uppfylli ekki skilyrði EES samningsins og þurfi því að gera upp við sig hvort þeir vilja vera innan Evrópusamstarfsins með aðild að Evrópusambandinu eða utan þess, dragi þeir umsókn sína til baka“.

Því eins því og sakir standa þá stangast gjaldeyrishöftin á við samninginn sem við gerðum við Evrópusambandið í gegnum EES samninginn um frjálsa för fjármagns milli Íslands og ESB ríkjanna.

Í gær lýsti Hilmar Veigar forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP því yfir að með áframhaldandi ástandi með óvissu í tengslum við krónuna, gjaldeyrishöftin og stöðugar sveiflur í efnahagslífinu hér,  myndi fyrirtækið neyðast úr landi eins og sum önnur fyrirtæki hafa gert. Þeim litist hins vegar vel á þá stefnu sem tekin hefur að með aðildarviðræðum við ESB og telja það geta breytt miklu.

Í þessu myndskeiði lýsir Hrund Rudolfsdóttir hjá Marel því hvaða afleiðingar krónan, gjaldeyrishöftin og óstöðugleikinn hefur á fyrirtæki sem hafa höfuðstöðvar hér á landi og eru í viðskiptum við fyrirtæki í öðrum ríkjum og hvers vegna aðild að ESB sé ekki bara valmöguleiki heldur nauðsynlegt fyrir fyrirtækin í landinu.

Á sama tíma hefur umræðan um lán sem almenningur hefur verið að taka háværari en nokkru sinni fyrr,  bankarnir lánuðu ólögleg lán til almennings –  lán í erlendri mynt sem stór hluti almennings kaus að taka því þann valkost því hinn valmöguleikinn var að taka klassísk verðtryggð lán sem þóttu jafnvel áhættumeiri, því sumir hafa neyðst til að greiða slík lán margfalt til baka vegna verðbólgu í gegnum áratugina.

Í löndum ESB ríkjanna er verðtryggin ekki notuð þegar lánastofnanir lána til almennings, vaxtakjör eru mun betri og þar er kostnaðurinum vegna gjaldmiðilsins ekki velt yfir á fólkið í landinu eins og gert hefur verið hér í tugi ára.  Þar lendir fólk ekki í því að greiða t.d. námslánin sín upp margfalt vegna verðtryggingarinnar eins og hér er algengt.

Það er af góðri ástæðu sem bæði Neytendasamtökin og ASÍ (100 þúsund félagsmenn) og helstu forystumenn atvinnurekenda eru hlynnt samningsviðræðum við ESB um aðild.   Í ársskýrslu ASÍ frá því á síðasta ári kemur meðal annars fram í rökstuðningi fyrir þessari skoðun samtakanna: „Það er skoðun ASÍ að yfirlýsing um að sótt verði um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sé eina færa leiðin. Þannig verði látið á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samningur Íslandi standi til boða og hann lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. ASÍ telur að yfirlýsing um að stefnt verði að aðild að evrópska myntsamstarfinu (ERM II) á næstu 2 árum myndi leggja mikilvægan grunn að því að skapa nauðsynlegan trúverðugleika fyrir meiri festu í skráningu krónunnar á næstu árum þangað til full aðild að Evrópska peningamálasamstarfinu (EMU) og upptaka evrunnar næðist.“

Það er ekki vegna sérhagsmuna heldur hagsmuna heildarinnar sem þessi stóru samtök hafa komist að þeirri niðurstöðu að umsóknarferli sé mikilvægt.  Með þetta í huga skora ég á alla þá sem langar að taka upplýsta ákvörðun um það hvort það sé vænlegt fyrir hagsmuni Íslendinga að ganga í ESB að skoða vel og vandlega kosti og galla með opnu hugafari.

Nokkrar síður sem gætu komið að gagni:

Upplýsingavefur Utanríkisráðuneytisins

Vefur sendinefndar og sendiherra ESB á Íslandi

Vefur Sterkara Íslands – Samtök Evrópusinna á Íslandi

Evrópuvaktin – vefur Evrópuandstæðinganna Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar