Í nýjasta tölublaði Iðnaðarblaðsins er rætt við Svönu Helen Björnsdóttur, forstjóra Stika og formann Samtaka sprotafyrirtækja.

„Aðstæður sprotafyrirtækja á Íslandi eru ekkert alltof góðar. Það sem sprotafyrirtæki þurfa er hæft fólk og oftar en ekki fólk sem er sérfræðingar í tæknigreinum. Það er mikill skortur á einmitt þessu fólki á Íslandi í dag. Bankarnir eru enn að soga þetta fólk til sín og fólki býðst starf á Norðurlöndum fyrir tvöfalt til þrefalt hærri laun en í boði eru hér á landi.“

Óstöðugleiki í efnahagsmálum er Svönu Helen ofarlega í huga og til lausnar þeim vanda horfir hún m.a. til aðildar að Evrópusambandinu.

„Ég held að stjórnendum flestra sprotafyrirtækja liði betur inni í Evrópusambandinu. Það er mjög hávær umræða meðal stjórnenda slíkra fyrirtækja um Evrópumálin. Það væri til þess að tryggja stöðugleikann betur. Þessar miklu sveiflur efnahagslífs og krónu hafa alltaf verið erfiðar fyrir sprotafyrirtæki. Það er erfitt að gera fjárhagsáætlanir sem aldrei standast vegna þess að gengið er alltaf á flökti.“

Hið fróðlega viðtal við Svönu Helen er hægt að lesa á bls. 12 í desembertölublaði Iðnaðarblaðsins.

Iðnaðarblaðið