Nú er hafinn nýr kafli í ESB-málinu og í raun nýr kafli í sögu íslenskra utanríkismála. Af því tilefni er  er kannski ástæða til þess að glöggva sig á því hvað það er í raun og veru það sem þetta mál snýst um.

Það sem er einkennandi fyrir málefni sem varða ESB, er að þau ganga þvert á allar flokkslínur og skipa fólki í fylkingar. Þær eru gjarnan kenndar við já eða nei. Þeir sem segja já vilja aðild og þeir sem segja nei vilja ekki aðild.

Inn í málið blandast á tilfinningalegan máta hugtök eins og fullveldi og sjálfsákvörðunarréttur. Við Íslendingar höfum haft slíkan rétt í raun frá 1904, er við fengum okkar fyrsta ráðherra, Hannes Hafstein. Þá fengu Íslendingar sjálfir að ráða sínum málum.

Fullveldið kom 1918, eftir ógurlegar hamfarir fyrri heimsstyrjaldar í Evrópu og sjálfstæðið 1944, þegar önnur heimsstyrjöldin geisaði af fullum krafti um í Asíu og Evrópu.

HIN FULLVALDA FJÖLSKYLDA

Hvað hugtakið fullveldi merkir geta menn (og hafa) deilt um, en kjarninn í því er ef til vill sá að þjóð taki sínar ákvarðanir sjálf án íhlutunar utanaðkomandi aðila.  Og ráði yfir ákveðnu landssvæði og sé t.d. með ríkisstjórn eða leiðtoga.

Við Íslendingar skilgreinum okkur á stundum sem eina fjöldkyldu. Ef tekið sé einfalt dæmi af fjölskyldu, þá myndi sú fjölskylda t.d. ákveða að fara erlendis í sumarfrí og það myndi engin annar skipta sér af þeirri ákvörðun. Þessi fjölskylda er því í raun fullvalda, enginn getur skipt sér af ákvörðun hennar.  En hún getur t.d. valið ömurlegan stað, lent í allskyns vandræðum, verið rænd þar o.s.frv. Þá stæði fjölskyldan ein.

En nú ákveður fjölskyldan að gerast aðili að ferðafélagi,  með öðrum fjölskyldum. Hún getur því ekki ákveðið upp á eigin spýtur hvert skal halda, heldur verður að gera það í sameiningu með hinum fjölskyldunum. Er þá þessi fjölskylda ennþá fullvalda, eða hefur hún tapað fullveldinu?

Í flestum tilfellum myndu fjölskyldurnar ná sameiginlegri niðurstöðu, sem sennilega yrði sátt um. Á móti því að vera ein, en fullvalda, hefur fjölskyldan nú ráðstafað fullveldi sínu með öðrum. Það hefur ákveðna kosti, getur t.d. verið skemmtilegra að vera með fleirum og veitt meira öryggi ef eitthvað bjátar á. Fleira mætti tína til, en ég læt lesendum það eftir að finna hliðstæður.

ANDSTÆÐAR FYLKINGAR – ANDSTÆÐ SÝN

Þær fylkingar sem deila um ESB-aðild hafa ákveðin einkenni. Nei-sinnar eru oftar en ekki einhverskonar þjóðernisíhaldsmenn og stefnu þeirra mætti því kalla ,,þjóðernisíhaldshyggju.“ Að þeirra mati á Ísland að standa eitt og sér, sem fullvalda ,,fjölskylda“ og að þeirra mati er fullveldið ,,fasti“ sem má ekki hagga.

Já-sinnar aðhyllast hinsvegar alþjóðahyggju og samstarf við aðrar þjóðir. Kalla mætti því stefnu Já-sinna ,,alþjóðasamvinnuhyggju.“ Þessi hópur er því á þeirri skoðun að lausnir fáist fram í samvinnu og samstarfi við aðrar ,,fjölskyldur.“ Þar hefði fjölskyldan enn áhrif, en þyrfti að taka tillit til annarra og skoðana þeirra.

ÁSKORANIR FRAMTÍÐAR – HVAR ÆTLUM VIÐ AÐ VERA?

Athygisvert er að skoða í framhaldi af þessu hvor leiðin sé farsælli þegar horft er til framtíðar. Þá er kannski gott að reyna að setja fram nokkra punkta um framtíðina, því við vitum að mörgu leyti megindrætti. Ljóst er að 21. öldin kemur til með að snúast mikið um loftslags og umhverfismál. Þessi mál eru mjög mikilvæg fyrir okkur Íslendinga.

Efnahagslegar breytingar undanfarinna áratuga, t.d.  með innkomu Kína inn í hið kapítalíska hagkerfi, hafa haft miklar breytingar í för með sér og það mun ekki breytast. Þróun mála þar í landi hefur áhrif á efnahagskerfi heimsins, í víðum skilningi. Kínverjar láta sig Ísland einnig skipta, eins og fréttir síðustu daga hafa sýnt. Indland er einnig vaxandi risi. Þá hefur Evrópa einnig tekið stakkaskiptum með hruni kommúnismans í lok áttunda áratugar síðustu aldar. Heimsmyndin hefur því gjörbreyst.

Hvað getur þetta þýtt fyrir okkur Íslendinga? Þessar breytingar?  Jú, breytingar á loftslagi og umhverfi geta haft mikil áhrif á hafsvæðin í kringum okkur. Til dæmis ef hafstraumar breytast. Hvað gerist þá? Erum við Íslendingar með viðbragðsáætlanir gagnvart  slíku?

En hvað kemur þetta ESB við? Jú, einfaldlega vegna þess að ESB hefur sett þessi mál á dagskrá og vinnur mikið innan þessara málaflokka. Og mun gera slíkt á komandi árum/áratugum. Þá er það spurningin, renna hagsmunir okkar og ESB saman?

Á komandi öld mun mannkynið örugglega einnig glíma við fátækt og hungur, stríð, náttúruamfarir, efnhagskreppur (fleiri) o.s.frv. Eins og það hefur ávallt gert. Allt þetta mun líklega snerta Ísland og Íslendinga á einhvern hátt.

Hvar vilja Íslendingar vera í öllu þessu dæmi? Eigum við að vera ,,ein og sér“ eða eigum við að efla og styrkja aðkomu okkar að samfélagi Evrópu, sem er jú eitt áhrifamesta samfélag í sögu heimsins, allavegana eins og staðan er núna. Við jarðskjálfta á Haití veitir ESB aðstoð, ESB-sinnir uppbyggingarstarfi í Gaza, eftir að Ísraelsmenn eru búnir að bomba svæðið sundur og saman og ESB veitir hungruðum börnum og mæðrum í einsræðisríkinu N-Kóreu mataraðstoð. Svo dæmi séu tekin.

Um þetta snýst ESB-málið að mínu mati; um framtíðarstefnu Íslands, fyrir komandi kynslóðir Íslendinga, hvar við ætlum að skapa okkur pláss í samfélagi þjóðanna og hvort við viljum vera með í því að gera heiminn betri. Eða hvort við ætlum bara að hugsa um okkur sjálf að mestu leyti og láta aðra lönd og leið. Mikilvægi málsins má því ekki vanmeta!

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson.