esb-isl2Kosningum til Alþingis er lokið. Nýtt þing og ný ríkisstjórn tekur við valdataumum á næstu dögum eða vikum.

Á þessari stundu er ómögulegt að spá fyrir um hvernig ný ríkisstjórn verður skipuð eða hvernig hún ætlar sér að haga málum á komandi kjörtímabili.

Á síðasta kjörtímabili ákvað Alþingi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Viðræður um aðild hófust formlega um mitt ár 2010 og hafa staðið síðan og miðað nokkuð vel. Búið er að loka 11 köflum og viðræður standa yfir um 16 kafla. Þá liggur samningsafstaða Íslands fyrir um tvo kafla en ekki um fjóra.

Það eru erfiðustu og flóknustu kaflarnir sem bíða úrlausnar og þar mun reyna á samningamenn og ráðherra á lokaspretti.

Skoðanir eru skiptar um hvort rétt sé af Íslandi að ganga í Evrópusambandið. Það hefur verið vitað lengi og í áranna rás hefur ýmist verið meirihluti fyrir því eða meiruhluti á móti.

Hitt hefur verið nær undantekningarlaust að skýr meirihluti hefur verið fyrir því að sækja um aðildina og enn er skýr meirihluti fyrir því að klára viðræðurnar. Í aðdraganda kosninganna nú voru um og yfir 60% þeirra sem tóku afstöðu að rétt væri að klára. Það var niðurstaða kannana Capacent fyrir Já Ísland í mars og Félagsvísindastofnunar fyrir RÚV í apríl.

Vonandi hefur ný ríkisstjórn kjark og þor til þess að ljúka þessu mikilvæga verkefni með glæsibrag og fara að vilja þjóðarinnar og leyfa henni að taka ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu á komandi kjörtímabili.

Jón Steindór Valdimarssonformaður Já Ísland