Það hallar verulega á íslenska neytendur þegar kemur að húsnæðislánunum. Þetta er helsta niðurstaða skýrslu sem Neytendasamtökin hafa unnið í samvinnu við neytendasamtök í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi, Írlandi, Hollandi, Þýskalandi og Austurríki.“ Þetta er niðurstaða könnunar  sem birtust á vef Neytendasamtakanna árið 2005 – það er áhugavert að skoða lánakjörin í kjölfarið á þeirri þróun sem var svo næstu ár á eftir þegar íslenskum neytendum var ýtt út í það að taka lán í erlendri mynt.   Þegar kjörin á lánum hér á landi voru langt um dýrari en það sem spár allra helstu sérfræðinga spáðu til um að gengissveiflur gætu kostað lántakandann sem veðjaði á að taka lán í erlendri mynt.   Enginn sá fyrir að íslensku bankavíkingarnir okkar myndu éta bankana upp að innan og hér myndi allt hrynja – a.m.k. sáu íslenskir neytendur það ekki fyrir – hvað þá að lánin væru ólögleg?!

Því eins og góðum neytendum sæmir tókum við – mörg hver, besta tilboðið sem markaðurinn bauð uppá.  Bíllinn var festur í körfum og sumir létu vaða og fjárfestu í húsnæði með eingöngu láni í erlendri mynt.

Þó svo um 5 ár séu síðan skýrsla Neytendasamtakanna var gerð gefur hún enn ágætan  samanburð milli þeirra kjara sem okkur Íslendingum býðst og þess sem Evrópubúum býðst þegar taka skal lán til fasteignakaupa.

Það blasir við að kjör almennings í Evrópusambandsríkjunum sé öllu betri en okkur býðst hér á  Íslandi.

Þá má geta þess að lánastofnanir í ESB ríkjunum halda ekki öllu upp um sig með bæði belti og axlarböndum  – almenningur í ESB ríkjunum þarf ekki að sætta sig við verðtrygginguna eins og við búum við hér á landi og hefur valdið því að lánin okkar í krónum hafa hækkað hraðar en nokkurn óraði fyrir að myndi gerast.

Ein helsta niðurstaða skýrslu Neytendasamtakanna var ,, Vextir á íslenska markaðnum eru þeir hæstu á því svæði sem könnunin nær til. Nafnvextir eru 2 – 7 prósentustigum hærri á Íslandi en í öðrum Norðurlöndum. Raunvextir eru að jafnaði 2 til tæplega 5 prósentustigum hærri en í hinum Evrópulöndunum.“

Eins og hagsýnni húsmóðir sæmir þá er freistandi að taka saman hvernig afborganirnar væru nú ef fjölskyldan hefði haft möguleika á að taka lán á þeim kjörum sem bjóðast á meginlandinu í bönkunum hér,  nú eða ef við hefðum haft evruna en ekki verðtryggða krónuna.  Eða að bera saman mun á yfirdráttarlánum hér og í ESB ríkjunum..   Á hraðferð um vaxtatöflur evrópskra banka- og lánastofnanna og okkar íslensku er samanburður þessarar 5 ára gömlu niðurstöðu Neytendasamtakanna staðfestur þrátt fyrir að töluverðar breytingar hafa orðið hér og annarstaðar.

Mergur málsins er að það er, og hefur verið lengi, miklu ódýrara að taka lán til fasteignakaupa í ESB ríkjunum en á Íslandi – sama hvað tautar og raular þá verður ESB aðild er einfaldlega góð fyrir budduna hjá almenningi, – og hver vill ekki þannig?

Bryndís Ísafold Hlöðversdóttir