Það virðist ætla að vera vonlaust að halda uppi málefnalegri umræðu við suma aðila hér á landi, nú hleypur Ögmundur upp um alla veggi alveg rasandi yfir því að ESB skuli styrkja Ísland í því ferli sem þarf að fara í þegar land sækir um aðild að ESB.  Aðalega er um að ræða að rýna stjórnsýsluna sem Ögmundur er greinilega búinn að steingleyma – að stjórnsýslan fékk áfellisdóm í nýlegri rannsóknarskýrslu!?  Er það ekki hræðilegt að nú gefist tækifæri til að rýna í hvað hægt er að gera til að gera stjórnsýsluna betri ? – hræðilega ógeðfellt ekki satt!?

Í ljósi rannsóknarskýrslunnar er ekki nema von að Evrópusambandið meti það svo að við þurfum styrk að svipaðri upphæð og fátækari ríki sem sækja um aðild fá, – til þess að fara í endurbætur á stjórnsýslunni okkar.

Ögmundi þykri efalaust ógeðfellt að leggja yfir höfuð peninga í samningsferlið – en að honum þyki ógeðfellt að ESB skuli sjálft leggja til fé sé líka ógeðfellt er óskiljanlegt.  Væri betra að við borguðum brúsann sjálf? að íslenskir skattgreiðendur borgi? myndi það gleðja hann?

Má ég minna á að Norðmenn sóttu í tvígang um aðild og fengu efalaust styrkt til að rýna í sína stjórnsýslu, þeir sögðu svo nei við samningunum og hvað? .. var skaði þeirra mikill að hafa farið í gegnum stjórnsýsluna sína og bætt hana?  Ekkert í þessu kemur þeim sem þekkja hvernig samningsferli ganga fyrir sig, fyrst Ögmundur er svona yfir sig hneykslaður – má vera að hann hafi ekki kynnt sér ferlið nógu vel? þekki ekki hvernig það virkar þegar lönd sækja um ESB?

Nei, það er einfaldlega ekki hægt að gera sumum til geðs – allt er og verður ógeðfellt í þeirra hug.

En um hvað snýst þetta? þetta snýst um að andstæðingar eru að leita að öllum mögulegum leiðum til að koma í veg fyrir að það sé hægt að ræða kosti og galla þess að Ísland gangi í ESB – Evrópusinnar vilja ólmir mæta umræðunni og tala um það sem málið snýst um en því miður virðast margir andstæðingar sambandsaðildar ekki hafa áhuga á því – afhverju ætli það sé?

Bryndís Ísafold Hlöðversdóttir.