Opið bréf til Ísafoldar, félag ungs fólks gegn ESB

Kæra Ísafold,

Eftir að við lásum bréf ykkar, sem stílað er á hæstvirtan forseta Alþingis og háttvirta Alþingismenn, þar sem þið hvetjið þingmenn til þess að samþykkja þingsályktunartillögu þess efnis að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka og gefið fyrir því tvær ástæður hvers vegna þið styðjið slíka tillögu, langar okkur að benda ykkur á nokkra hluti.

Þið segið í bréfinu að þær forsendur sem leiddu til aðildarumsóknar Íslands að ESB, að Evrópusambandsaðild og upptaka evrunnar myndu flýta fyrir efnahagsbata hins íslenska hagkerfis, séu brostnar. Það verður að teljast einstakt í sögunni að tólf frjáls og fullvalda ríki kasti af sjálfsdáðum eigin gjaldmiðli og taki í staðinn upp sameiginlega mynt, mynt sem í dag er orðinn einn útbreiddasti gjaldmiðill í heimi og hátt í þrjátíu ríki nota. Gengi evrunnar hefur sveiflast töluvert gagnvart Bandaríkjadal og á fyrstu árum féll til dæmis gengi hennar verulega en styrktist svo að nýju. Það stöðvaði hins vegar ekki ný ríki í því að taka upp Evruna sem og íslensk fyrirtæki, til dæmis útgerðarfyrirtæki, í að stunda sín viðskipti í Evrum. Það er því fullsnemmt að dæma evruna til dauða.

Þið nefnið landsfund Sjálfstæðisflokksins sem dæmi um óánægju íslensku þjóðarinnar með aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og þá ályktun þeirra um að draga skuli umsóknina til baka án tafar. Til að byrja með er gott að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki þjóðin. Í öðru lagi fengu þessir sömu Sjálfstæðismenn Daniel nokkurn Hannan, Evrópuþingmann, til þess að flytja hér á landi erindi þar sem þeir áttu eflaust von á því að hann tæki undir ályktun þeirra. Það gerði hann hins vegar ekki heldur sagði hann að við ættum að drífa umsóknarferlið af og leyfa síðan þjóðinni að kjósa um samninginn. Sjálfstæðisflokkurinn er því eflaust ekki jafn hrifinn af erlendum fræðimönnum og Ísafold. Næst var það formaður Landsambands íslenskra útvegsmanna sem sagði að ekki ætti að draga umsóknina til baka heldur reyna að ná eins góðum samningi og mögulegt er. Það verður því að segja sem svo að þeim fer fækkandi sem vilja standa í vegi fyrir því beina lýðræði sem felst í því að leyfa þjóðinni að kjósa um aðildarsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við viljum síðan benda Ísafold á að frá bæjardyrum Evrópusambandsins séð snúast aðildarviðræður í raun aðeins um það hvernig hið væntanlega nýja aðildarríki innleiðir alla gildandi sáttmála, löggjöf og stefnumið sambandsins. Að sama skapi mæta báðir aðilar til borðs með sín samningsmarkmið sem snúa fyrst og fremst að því fyrir okkur að fá að njóta ákveðins sveigjanleika við aðlögun að lögum og stefnum ESB, einkum á þeim sviðum þar sem mestir þjóðarhagsmunir teljast vera í húfi. Það er auðvitað ómögulegt að segja til um hvað kemur úr aðildarviðræðum fyrr en samningurinn liggur fyrir en ljóst er að flest umsóknarríki ganga í gegnum róttæk umskipti samhliða viðræðum en ólíklegt þykir að breytingarnar hér verði eins stórfenglegar eins og til dæmis þegar stækkunin til austurs stóð yfir.

Að lokum viljum við benda Ísafold á að Evrópusambandið hefur ekki sameiginleg auðlindayfirráð og þær reglur sem gilda um stjórn orkuauðlinda hafa þegar verið teknar inn í íslensk lög vegna EES-sáttmálans. Það kemur fram í 295. grein stofnsáttmála sambandsins að forræði yfir auðlindum sé hjá aðildarríkjum.

Í ljósi þessa hvetjum við ykkur til þess að leyfa Íslendingum að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið og gefa þannig þjóðinni tækifæri til þess að kjósa um framtíð Íslands, í þjóðaratkvæðagreiðslu, um samninginn sem kemur út úr viðræðunum við Evrópusambandið.

Virðingarfyllst,

Stjórn Ungra evrópusinna.