Þessi grein eftir Benedikt Jóhannesson birtist á vefriti Bæjarins besta í vikunni og fjallar um afstöðu ungs fólks til Evrópusambandsins.

Ungir Íslendingar virðast ekki spenntir fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Skoðanakannanir benda til þess að ungmenni séu neikvæðari á aðild en aðrir Íslendingar. Þegar gengið er á þá sem þannig svara eru skýringar oft á þann veg að aðildin sé slæm fyrir sjávarútveg og landbúnað. Látum réttmæti svarsins liggja milli hluta. Það sýnir að þetta unga fólk hefur hjartað á réttum stað, það vill hag þessara atvinnugreina sem mestan þótt nánast ekkert þeirra ætla að vinna við slík störf í framtíðinni.

Nýlega var kynnt á vefsvæðinu visir.is könnun Evrópusambandsins, Flash Euro-barometer on Youth, sem gerð var meðal ungs fólks í 31 Evrópulandi í byrjun árs. Hún sýndi að um 85 prósent íslenskra ungmenna hafa áhuga á því að vinna í öðru Evrópulandi í framtíðinni. Þar af hafa rúmlega 40% áhuga á því að flytja þangað og vinna þar til langtíma.

Hlutfall þeirra sem vilja flytja til útlanda til vinnu reyndist hæst meðal ungmenna á Íslandi. Ungt fólk í mörgum Evrópulöndum vill gjarnan vinna utan heimalands síns, en ekki er vitað til þess að Ísland sé vinsæll áfangastaður. Ungir Tyrkir eru heimakærastir, en 15% þeirra hafa áhuga á því að flytja úr landi.

Könnunin hefur ekki vakið mikinn áhuga stjórnmálamanna enn sem komið er, en hún sýnir vanda þjóðarinnar í hnotskurn. Unga fólkið sem vorkennir bændum og útgerðarmönnum og vill leyfa þeim að halda sig utan Evrópusambandsins vill langflest sjálft ganga í þetta sama samband til lengri eða skemmri tíma. Ástæðan er einföld. Ungmennin telja að þeirra eigin framtíð sé bjartari innan Evrópusambandsins en utan. Þau hyggjast greiða atkvæði með fótunum en vilja leyfa íslenskum bændum að búa við óbreytta tollvernd og styrki. Þeir sem eftir verða geta borgað brúsann.

Því miður mun stór hluti þjóðarinnar engu skeyta um þessa niðurstöðu. Ungmennin hafa gefið þeim eldri aðvörun, en áfram verður snúið út úr og látið eins og það sé betra fyrir Ísland að verða annars flokks um alla framtíð. Allir Íslendingar ættu að hugsa um það hvers vegna æska landsins vill ekki búa hér.

Benedikt Jóhannesson.