857609_10151406596582978_1635787089_oGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnmálafræðingur og stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, skrifar grein í Morgunblaðið í dag,  20. mars 2013, um mikilvægi þess að við klárum aðildarviðræður við Evrópusambandið og sjáum samninginn, sem þjóðin mun síðan kjósa um. Mikilvægi þess að ákveðnir hópar og einstaklingar taki ekki þann möguleika af okkur. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Pakkann skuluð þér ekki sjá!

ESB-málinu er oftar en ekki stillt upp sem ,,pakka-máli“ af andstæðingum þess, þ.e. þeir tala um það með mjög neikvæðum formerkjum og tóni ,,að kíkja í pakkann.“ Það má nefnilega sko alls ekki, ef eitthvað sem heitir ESB er í pakkanum. En hvað er að því að kíkja í pakkann? Er það eitthvað hættulegt? Óæskilegt, jafnvel vont?

Hvað gæti verið í þessum pakka? Lægri vextir, lægri verðbólga, nothæfur og alþjóðlegur gjaldmiðill, mögulegt afnám verðtryggingar, frjáls og óheftur aðgangur að markaði 550 milljóna manna fyrir allar íslenskar vörur, raunveruleg byggðastefna, aukin tiltrú á Íslandi, möguleiki á aukinni erlendri fjárfestingu, aðkoma að mikilvægustu ákvörðunum sem teknar eru í Evrópu á sviði eins og umhverfismálum, almennri lagasetningu og fleira.Er stórhættulegt að kíkja í pakka sem mögulega gæti innihaldið þetta?

Í lok seinna stríðs fékk Ísland pakka sem hét ,,Marshall-aðstoð“ og átti sá pakki stóran þátt í mikilli uppbyggingu hér á landi. Annar pakki, EFTA, kom svo í kringum 1970, en þá heyrðust mótmælendaraddir. EFTA-aðild og fríverslunin sem henni fylgdi hefur reynst okkur vel. Enn einn pakkinn, EES-samningurinn, kom svo um miðjan níunda áratuginn og þá ætlaði allt um koll að keyra hjá ýmsum aðilum hérlendis, ræðumet féllu á Alþingi og hvaðeina. Sá pakki hefur einnig reynst okkur vel, en er alls ekki gallalaus. Í gegnum hann innleiðum við upp lög frá ESB án þess að hafa nokkur áhrif á þau.

Lok,lok og læs

Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á dögunum ályktun þess efnis að klára ekki aðildarviðræðurnar við ESB, heldur að hætt verði við úti í miðri á og kasta nokkur hundruð milljónum og ómældri vinnu tuga, ef ekki hundruða manna út á hafsauga! Eins og það er nú gáfulegt. Er þetta aðhaldið í ríkisfjármálum sem flokkurinn boðar? Rökin fyrir að hætta eru gjarnan þau að þetta sé svo ofboðslega dýrt ferli. Á sama tíma er íslenskt atvinnulíf að borga himinháar upphæðir í vaxtamun miðað við Evrópu, gríðarlegan kostnað vegna landlægrar verðbólgu, gjaldeyrishafta (vegna hruns krónunnar) og svo framvegis. Fjölskyldur sitja einnig uppi með kostnað af þessu, auk alræmdrar verðtryggingar, sem þarf að vera til vegna krónunnar, sem tapað hefur 99,5% af upprunalega verðgildi sínu, m.a. í gegnum gengisfellingar. Í tveimur könnunum sem gerðar voru í mars kom hinsvegar fram að mikill meirihluti íslensku þjóðarinnar vill halda aðildarviðræðum áfram.

Samningur = upplýst ákvörðun

Ákvörðun Sjálfstæðisflokksins lyktar af sterkri forræðishyggju, forysta flokksins vill hafa allt um það að segja hvað landsmönnum er fyrir bestu og telur sig vera handhafa sannleikans í ESB-málinu. Samkvæmt landsfundarályktun á ekki að hefja viðræður að nýju nema fyrir liggi þjóðaratkvæðagreiðsla. Varaformaður flokksins sagðist hinsvegar ekkert vita um hvenær eða hvort hún yrði haldin (Silfur Egils, RÚV, 17.3). Ákvörðunin rímar einnig mjög illa við grunnstefin í hugmyndafræði flokksins, sem m.a. kveða á um frelsi einstaklinga, m.a. til þess að velja og hafa áhrif á sína eigin framtíð.

Kæri lesandi: Úti í samfélaginu eru einstaklingar og hópar sem þrífast á ákveðnum sér og einkahagsmunum. Oftast á kostnað almannahagsmuna, sem virðst vera einhverskonar afgangsstærð í íslensku samfélagi. Þessir aðilar vilja hindra ÞIG í að taka EIGIN ákvörðun, byggða á ÞINNI skynsemi og ÞÍNU mati á aðildarsamningi við ESB. Þessir sömu aðilar vilja hindra lýðræðið og framkvæmd þess. Gegn því þarf að sporna. Aðeins er hægt að taka upplýsta ákvörðun um málið á grundvelli aðildarsamnings og þannig meta kosti hans og galla. Látið ekki blekkjast af þeim falsrökum að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun án samnings. Samninginn á borðið – sem ÞÚ færð svo að kjósa um! Það er fullkomlega eðlileg krafa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 20. mars 2013.