Utanríkisráðherra Póllands segir að Pólverjar muni taka upp evruna þegar vandamálin á evrusvæðinu hafa verið leyst.

„Við erum tilbúin til að aðildar að evrusvæðinu þegar þið hafið leyst ykkar vandamál og þegar við getum sagt við pólsku þjóðina: „það er núna öruggt fyrir okkur að vera með,“ sagði Radoslaw Sikorski í viðtali við þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung, sem sagt er frá í vefritinu EU Business.

„Það er varla hægt að áfellast okkur fyrir að vilja ekki gerast aðilar að evrusvæðinu meðan þar er alvarleg kreppa í gangi,“ bætti hann við.

Pólland gerðist aðili að Evrópusambandinu á árinu 2004. Pólsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að landið muni uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir aðild að evrusvæðinu fyrir árið 2015. Pólverjar hafa hins vegar neitað að gefa upp ákveðna dagsetningu um það hvenær þeir ætli að leggja niður eigin gjaldmiðil, zloty, vegna skuldavandans á evrusvæðinu.