Í fréttabréfi sem Samtök atvinnulífsins sendu frá sér þann 17. janúar s.l. er fjallað um íslensku krónuna og gjaldeyrishöftin sem hafa verið við lýði frá því í nóvember 2008 og það ráðleysi sem skapast hefur í kjölfarið, samkvæmt Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra SA, sem skrifar undir bréfið.

Í bréfinu segir meðal annars:

„Gjaldeyrishöftin eru sem krabbamein í efnahagslífi Íslendinga. Þau eru bein yfirlýsing og viðurkenning íslenskra stjórnvalda á því að íslenska krónan sé óáreiðanlegur gjaldmiðill sem beri að varast. Atvinnulífið og fjárfestar hljóta að taka mark á þessu og afleiðingin er eilífur gjaldeyrisskortur og þrýstingur á gengi krónunnar. Gera má ráð fyrir að gengi krónunnar í höftum fari stöðugt lækkandi, með árstíðabundnum sveiflum, en það veit ekki á gott fyrir verðbólguna. Við bætist að það mikla fé í eigu útlendinga sem haldið er föstu hér í landinu er á beit á íslenskum vöxtum og því stækkar sífellt vaxtareikningurinn sem erlendir aðilar senda þjóðinni.

Því hefur verið haldið fram að íslenska þjóðin rísi ekki undir þeirri skuldabyrði sem á henni hvílir vegna eigna erlendra aðila í íslenskum krónum. Því þurfi höftin. En vandamálið heldur bara áfram að vaxa með áframhaldandi höftum. Þannig er verið að hlaða mikla sprengju sem á endanum springur í andlitið á þjóðinni. Því þarf að afnema höftin hið allra fyrsta.“

Hægt er að lesa bréfið í heild sinni hér: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5715/