Þann 21. september næstkomandi standa Alþjóðamálastofnun og
Mannréttindastofnun fyrir ráðstefnu um stjórnskipulag Evrópusambandsins
og Norðurlanda, í samvinnu við lagadeild Háskólans í Reykjavík og
Evrópustofu. Ráðstefnan fer fram í Norræna húsinu og hefst klukkan 13.

SKRÁNINGAR BERIST Á AMS@HI.IS

Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á áhrif aðildar að Evrópusambandinu á stjórnskipulag ríkja, einkum Norðurlandanna. Með auknum samruna í Evrópu, hafa mótast tvenns konar stjórnskipunarkerfi annars vegar stjórnskipun aðildarríkja og hins vegar yfirþjóðleg stjórnskipun Evrópusambandsins. Þessi kerfi skarast, enda lúta þau m.a. að valdbærni stofnana og meðferð valds gagnvart borgurum, en hvíla þó á ólíkum hugmyndafræðilegum undirstöðum og kenningum um uppsprettu valdsins. Á ráðstefnunni verður m.a. fjallað um hvernig lagakerfi Evrópusambandsins hefur smám saman „stjórnarskrárvæðst“ og samspil stjórnskipunarreglna í landsrétti og sambandsrétti, ástæður þeirrar þróunar, kosti hennar og galla og áhrif á lýðræðislega stjórnarhætti í aðildarríkjum sambandsins.

Frummælendur eru sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar, Evrópuréttar og stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Kaupmannahafnarháskóla og frá dómstól ESB. Ráðstefnan fer fram á ensku og er öllum opin.

Hér má sjá dagskrá ráðstefnunarinnar: http://stofnanir.hi.is/ams/r%C3%A1%C3%B0stefna_21_september_stj%C3%B3rnskipulag_evr%C3%B3pusambandsins_og_nor%C3%B0urlanda