Í Fréttablaðinu í dag, þann 13. janúar, birtist grein eftir Kristján Vigfússon, kennara við Háskólann í Reykjavík, þar sem hann fjallar um aðildarviðræður Íslands, annarra smáríkja og þá nauðsyn að ræða efnisatriði aðildar.

Í greininni segir meðal annars:

„Samningaviðræðurnar ganga út á að opna og ræða efnislega hvern kafla eða málaflokka sem sáttmálar Evrópusambandsins taka til. Nú fyrir áramót var búið að opna 11 af þessum 33 köflum og loka 8. Eftir eru 22 mismikilvægir kaflar. Gefið hefur verið út af utanríkisráðherra að fyrir mitt ár 2012 verði búið að opna alla kafla samningaviðræðnanna. Þar skipta mestu máli kaflarnir um landbúnað, gjaldmiðilsmál, byggðastefnu, orkumál og sjávarútveg en þeir hafa ekki enn verið opnaðir. Það eru í raun þeir kaflar sem virkilega þarf að semja um og líklegt er að samningsaðilar hafi þegar mótað sér samningsafstöðu í þessum málaflokkum og séu með ákveðin þolmörk í huga um hversu mikið megi gefa eftir svo um ásættanlega samninga sé að ræða.“

„Ef skoðaður er sá tími sem hefur farið í samningaviðræður einstakra smærri umsóknarríkja sem við höfum helst viljað bera okkur saman við þá kemur í ljós að ekki hefur tekið nema að meðaltali um 2 ár að ljúka aðildarviðræðum frá upphafi til enda. Það tók Íra eitt og hálft ár að ljúka viðræðum. Svía, Finna og Austurríkismenn rúmt ár. Litháa, Letta, Slóvaka og Maltverja tæp tvö ár.“

Í lokin bætir Kristján við að þegar viðræðum lýkur og samningur liggur fyrir „muni þá loksins verða hægt að takast á um Evrópumálin efnislega en ekki eins og fram til þessa fyrst og fremst á tilfinningaþrungnum þjóðernisnótum“

Greinina er hægt að lesa í heild sinni hér: http://www.visir.is/raedum-efnisatridi-esb-adildar/article/2012701139899