sveinn_andri_sveinssonSveinn Andri Sveinsson, hrl. ritar pistil á Pressunni þann 12. júní 2013. Í pistlinum segir m.a:

„Vandinn er hins vegar sá að Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórn að sækja um aðild, hefja viðræður og bera síðan aðildarsamning undir þjóðina, allt eftir ferli og ramma sem utanríkismálanefnd lagði upp með og er álit utanríkismálanefndar hluti af ályktun þingsins. Þessi þingsályktun er enn í gildi þótt nýtt Alþingi hafi verið kosið og ný ríkisstjórn skipuð. Ríkisstjórnin getur trauðla sett viðræðurnar í ferli sem er á skjön við þann vilja Alþingis sem endurspeglast í ofangreindri þingsályktun.“

Pistillinn er birtur hér í heild sinni með góðfúslegu leyfi höfundar.

Ríkisstjórnin getur ekki slitið aðildarviðræðum við ESB

Þann 16. júlí 2009 samþykkti Alþingi Íslendinga svofellda þingsályktun:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.”

Í umræðu á Alþingi um stöðu viðræðna við ESB sagði nýskipaður utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson að viðræðum við Evrópusambandið verði alls ekki haldið áfram undir hans stjórn; hlé á viðræðum þýði að gert verði alvöru hlé. „Það verður illa haldið áfram, eiginlega bara alls ekki, viðræðum við Evrópusambandið undir stjórn þess utanríkisráðherra sem hér stendur.” sagði hann orðrétt.

Hinn nýi utanríkisráðherra er með þessu í raun að segja að þegar hann fari til Brussel muni hann ekki tilkynna embættismönnum þar að viðræðum sé frestað heldur að þeim sé hreinlega hætt. Utanríkisráðherrann er með orðum sínum að segja að viðræðum verði ekki fram haldið á þessu kjörtímabili. Frestun á viðræðum út kjörtimabilið hlýtur að jafngilda því að slítið sé viðræðum. Annað væri kindarlegt.

Þegar nær dró síðustu kosningum hægði þáverandi ríkisstjórn á aðildarviðræðunum, enda ráðherrar og þingmenn uppteknir af kosningabaráttu. Viðræðunum var ekki frestað. Ný ríkisstjórn hefur boðað það setja málið í nýtt ferli; gerð verði úttekt á kostum og göllum aðildar að Evrópusambandinu og viðræðum verði ekki framhaldið fyrr en að lokinni þeirri úttekt og að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er allt gott og blessað.

Vandinn er hins vegar sá að Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórn að sækja um aðild, hefja viðræður og bera síðan aðildarsamning undir þjóðina, allt eftir ferli og ramma sem utanríkismálanefnd lagði upp með og er álit utanríkismálanefndar hluti af ályktun þingsins. Þessi þingsályktun er enn í gildi þótt nýtt Alþingi hafi verið kosið og ný ríkisstjórn skipuð. Ríkisstjórnin getur trauðla sett viðræðurnar í ferli sem er á skjön við þann vilja Alþingis sem endurspeglast í ofangreindri þingsályktun.

Ríkisstjórnin getur lagt sínar pólitísku línur í sínum stjórnarsáttmála, en ríkisstjórnin er eftir sem áður jafn bundin af ályktun Alþingis og síðasta ríkisstjórn var. Mjög hæpið er að hægt sé að fara í hið breytta ferli sem ríkisstjórnin boðar á aðildarviðræðum getur án atbeina Alþingis og stjórnskipulega er sannarlega óheimilt að slíta viðræðunum við ESB, með þeim hætti sem nýr utanríkisráðherra boðar, til þess þarf atbeina Alþingis; nýja þingsályktun.

Pistillinn á Pressunni