bilde (1)Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels, skrifar grein í Fréttablaðið í dag.  Þar hvetur hann til þess að aðildarviðræður við ESB verði kláraðar, enda um stærsta hagsmunamál þjóðarinnar að ræða.

Í greininni segir Sigsteinn meðal annars:

„Ísland á nú í samningaviðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu. Takist að ná hagstæðum samningum sem tryggja heildarhagsmuni er stigið stórt skref í þá átt að gera mögulegt að taka upp evru, minnka óstöðugleika og koma vaxtastigi nær því sem samkeppnisaðilar búa við. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir starfsskilyrði og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja – svo ekki sé talað um hag heimilanna.

Alþjóðleg fyrirtæki með íslenskar rætur, á borð við Marel, byggja tilvist sína, vöxt og þróun á því að geta staðist harða samkeppni á mörkuðum utan Íslands.“

Sigsteinn lýkur greininni svo á þessum orðum:

„„Römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til“ segir í ævafornu kvæði. Við skulum þó hafa í huga að engin taug er svo sterk að hún geti ekki slitnað við of mikla áraun. Það á einnig við um þá taug sem togar í fólk og fyrirtæki til að halda tryggð við Ísland, ekki síst ef miklu betri aðstæður bjóðast í öðrum löndum.

Ég hvet alla landsmenn og ekki síst stjórnmálamennina okkar að íhuga þessa stöðu vandlega og hvort ekki sé skynsamlegt að reyna til þrautar að ná samningum um aðild að ESB í þessari lotu. Hin leiðin, að hætta viðræðum án niðurstöðu, er óráð og hrein uppgjöf í einu mikilvægasta hagsmunamáli okkar. Það yrði óviss ferð sem gæti endað illa.“

Greinina má lesa í heild sinni hér.