Fjölmenni var á fundinum (ljósm. Gunnar V. Andrésson)

Þingmenn úr þremur stærstu stjórnmálaflokkunum eru sammála um að ekki sé rétt að draga umsókn Íslands að ESB til baka né að stöðva eða trufla það ferli sem sem Alþingi setti af stað í júlí 2009.

Þetta kom fram á fjölmennum fundi STERKARA ÍSLANDS í Iðnó í morgun.

Í pallborði sátu þau Katrín Jakobsdóttir, menntmálaráðherra og varaformaður VG, og þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki og Valgerður Bjarnadóttir, Samfylkingunni. Í pallborðinu var til umræðu hvort þingmenn gætu tekið höndum saman um ljúka ferlinu og taka út af borðinu hugmyndir um að rjúfa það. Um það voru þau öll sammála þó Katrín og Guðlaugur Þór lýstu þeirri skoðun að þau væru andvíg aðild að ESB.

Sömuleiðis kom fram vilji til þess að færa umræðuna í málefnalegra horf og ræða um raunverulega hagsmuni og snúa sér að því að tryggja gagnsætt samningaferli og miðla upplýsingum til almennings.

Umræðan um aðild að ESB yrði erfið og það væri skylda þingsins að auðvelda þá umræðu og stuðla því að deilur verði ekki of hatrammar.  Hluti þeirrar umræðu er að ræða framtíðarskipan margra mikilvægra mála, m.a. mála sem verður að marka stefnu fyrir hvort sem kemur til aðildar eða ekki.

————

Í upphafi fundarins voru flutt fjögur stutt inngangserindi og voru framsögumenn allir sammála um að taka ferlið til enda. Það gerðu þau á mismunandi forsendum og einn lýsti einn framsögumanna, Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG, miklum efasemdum um ágæti þess að ganga í ESB en vildi engu að síður klára ferlið. Hún sagði m.a.:

„Mín skoðun er sú að betra sé að fyrir liggi samningur, enda liggi þá skýrt fyrir hverjir kostirnir eru. Efin og ætlin verða færri, rökræðurnar fókuseraðari og málefnalegri … … fólk vill segja skoðun sína, fólk vill rökræða og fólk vill hafa áhrif. Þann sjálfsagða rétt ber að virða – og því tel ég æskilegt að ljúka við það ferli sem nú er hafið svo þjóðin geti ákveðið næstu skref.“

G. Valdimar Valdimarsson, formaður alþjóðanefndar Framsóknarflokksins gerði að umtalsefni nauðsyn þess að ræða um efni máls og móta stefnu.

„Ég trúi því ekki að framsóknarmenn, sjálfstæðismenn og vinstri grænir hafi ekki á því skoðun eða séu tilbúnir að treysta Samfylkingu og embættismönnum fyrir ákvörðunum er varða samningsmarkmið og áherslur í íslenskum landbúnaði í komandi framtíð.“

Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ – samtaka verslunar og þjónustu sagði meðal annars:

„Þó að ég flokkist sem Evrópusinni hef ég alla tíð sagt,  að ég muni ekki greiða Evrópusambandinu atkvæði mitt ef samninganefnd Íslands kemur heim með lélegan samning.   En mér finnst hins vegar mun skynsamlegra að þjóðin fái að greiða atkvæði um eitthvað – þ.e. einhvern samning  – en ekki að henni sé á ný gert að greiða atkvæði um ekki neitt – eins og nú hefur verið lagt til á Alþingi.   Hvernig á ég að geta kosið um hvort að ég vilji halda áfram viðræðuferlinu við ESB nema vita hverju ferlið muni skila.“

Margrét Guðmundsdóttir, formaður Félags atvinnurekenda fjallaði um traust og sagði:

„Uffe Ellemann-Jensen fyrrv. utanríkisráðherra Danmerkur sagði í viðtali þegar Bogi Ágústsson talaði við hann um stöðu Íslands eftir hrun:

“Þið eigð þó alltaf Vigdísi”

Vigdís Finnbogadóttir er sennilega sú trúverðugasta “stofnun” sem Íslendingar eiga og hafa átt.

Ef aðildarviðræðum verður hætt missum við þann litla trúverðugleika sem við höfum enn sem þjóð.
Tökum höndum saman hættum hræðsluáróðri og ljúkum verkinu.“
________

Punktar G. Valdemars Valdimarssonar

Erindi Margrétar Guðmundsdóttir

Erindi Margrétar Kristmannsdóttur

Erindi Sóleyjar Tómasdóttur
_________

Upptaka frá fundinum í heild