Föstudaginn 30. mars, héldu samningaviðræður Íslands og ESB áfram á ríkjaráðstefnu í Brussel. Þann dag voru fjórir kaflar opnaðir og tveimur var lokað samdægurs.

Það voru kaflarnir um utanríkis-, öryggis- og varnarmál sem og um neytendamál og heilsuvernd sem voru opnaðir og lokað samdægurs. Þá voru einnig opnaðir kaflarnir um samkeppnismál og orkumál. Á næstu misserum munu fara fram samningaviðræður um þá kafla.

Á vef Utanríkisráðuneytis kemur fram eftirfarandi:

„Í viðræðum um samningskafla 31um utanríkis-, öryggis- og varnarmál kom meðal annars fram að Ísland deilir grunngildum með aðildarríkjum Evrópusambandsins s.s. virðingu fyrir mannréttindum og áherslu á friðsamlega lausn deilumála. Í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum er þátttaka í aðgerðum í hverju tilviki háð ákvörðun sérhvers ríkis. Þá var kunngerð sérstök sameiginleg yfirlýsing, sem verður hluti aðildarsamnings Íslands, þar sem sérstaða Íslands sem herlauss lands er áréttuð og tekið fram að aðild hafi ekki áhrif á gildandi lagagrundvöll, ábyrgð eða valdheimildir Íslands að því er varðar mótun og framfylgd stefnu þess í öryggis- og varnarmálum.“

Samningaviðræður Íslands og ESB snúast um 33 kafla í löggjöf á mismunandi sviðum. Alls hafa 15 samningskaflar verið verið opnaðir og er samningum lokið um 10 þeirra.

Næsta ríkjaráðstefna verður haldin í júní á þessu ári.

Nánar um málið hér: http://www.vidraedur.is/annad/frettir/nr/6999