Samningsafstaða Íslendinga varðandi byggðastefnu og samræmingu uppbyggingarsjóða Evrópusambandsins liggur fyrir og var lögð fram á vefnum vidraedur.is í gær.

Þar kemur fram á að Ísland fer fram á að varanlegir annmarkar landsins og sérkenni og staða þess sem ysta ríkis verði viðurkennd í aðildarsáttmálanum. Viðbótarfjárveitingar verði veittar til landsins vegna þeirra annmarka. Staða Íslands sem eyríkis verði viðurkennd.

„Fjarlægð, einangrun, erfiðir staðhættir, veðurfar og efnahagur sem háður er fáum framleiðsluvörum hefur mótandi áhrif á atvinnu- og uppbyggingarskilyrði á Íslandi og félagslegar og efnahagslegar aðstæður, en varanlegt eðli og samanlögð áhrif þessara þátta setja þróun Íslands miklar skorður,“ segir í skjalinu.

„Enn fremur er Ísland staðsett nyrst í álfunni og er lítið, fámennt og afar strjálbýlt eyríki, sem býr við miklar vegalengdir og langvarandi svæðisbundna fólksfækkun. Taka verður tillit til þessara varanlegu annmarka og sérkenna með viðeigandi aðgerðum og ráðstöfunum, m.a. með vísan til ákvæða sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, aðildarsamninga og þeirrar afleiddu löggjafar sem við kann að eiga, þ.m.t. ráðstafanir sem þegar er beitt gagnvart svæðum sem búa við svipaðar landsvæðisbundnar, félagslegar og lýðfræðilegar takmarkanir.“

Einnig segir að Ísland fari fram á viðbótarfjárveitingar til að mæta þessum varanlegu annmörkum. „Slík viðbótarúthlutun verði ákvörðuð á grundvelli heildaríbúafjölda landsins þar sem sá viðbótarkostnaður sem hlýst af þessum varanlegu annmörkum fellur á alla landsmenn,“ segir ennfremur.

Farið er fram á að hlutfall framlags úr sjóðunum endurspegli fyrrgreinda varanlega annmarka.

Þá er farið fram á að landið í heild uppfylli skilyrði fyrir svæðisbundinni ríkisaðstoð á grundvelli sérstakra þarfa sem skapast vegna þessara varanlegu annmarka.

Þá segir að í ljósi þeirra breyttu efnahagsaðstæðna sem Ísland stendur frammi fyrir sé farið fram á að viðmiðunarár fyrir fjárveitingar úr sjóðunum verði ákvörðuð í samningaviðræðum.

Ítarleg rök eru færð fyrir því að verg landsframleiðsla eða aðrar heildartölur reiknaðar á íbúa séu að mörgu leyti ekki viðunandi mælieining á efnahagslega og félagslega stöðu að því er Ísland varðar. „Beiting núverandi mælikvarða
myndi ekki taka nægilegt tillit til innlendra og svæðisbundinna áskorana á Íslandi,“ segir í samningsafstöðunni. Aðrir mælikvarðar séu nauðsynlegir þegar fjárveitingar til Íslands eru ákvarðaðar innan ramma byggðastefnunnar.

Um þetta segir:

„VLF er algengur mælikvarði á ríkidæmi þjóða. Þar er Ísland ofarlega í alþjóðlegum samanburði. Hvað framleiðni varðar, er Ísland hins vegar eftirbátur. Þegar landframleiðsla á vinnustund er notuð til samanburðar er staða Íslands því lakari.

Opinberir þjóðhagsreikningar draga neikvæð áhrif fjármálakreppunnar einungis fram að hluta til. Sé miðað við kaupmáttarstaðal (PPS) jafngilti þjóðarframleiðsla á Íslandi 8,63 milljörðum evra árið 2010, sem er 111% af meðaltali ESB-ríkjanna 27, en hlutfallið hafði verið 139% af meðaltali þeirra árið 1999. Árið 2010 voru vergar þjóðartekjur (PPS) 7,12 milljarðar evra, eða 91,7% af meðaltali ESB-ríkjanna 27 og höfðu lækkað úr 128,5% árið 1999.

Ef mælingin er miðuð við ESB-ríkin 25 eru vergar þjóðartekjur á Íslandi (PPS) 93,9% árið 2008, 91,8% árið 2009 og 88,7% árið 2010. Leiðir það í ljós þær harkalegu breytingar sem orðið hafa í efnahagsumhverfinu og taka þarf tillit til í samningaviðræðunum.“

Þá kemur fram að „tíðra og alvarlegra náttúruhamfara á Íslandi og hins einstaka viðbragðskerfis við neyðarástandi sem er fyrir hendi“ fari Ísland fram á tæknilegar viðræður um með hvaða hætti Samstöðusjóður ESB geti komið til móts við þessar sérstöku náttúrulegu aðstæður og viðvarandi náttúruvár. Samstöðusjóður ESB var stofnaður árið 2004 í því skyni að veita aðildarríkjum aðstoð vegna alvarlegra náttúruhamfara.