Á upplýsingavefnum vidraedur.is, sem hefur að geyma upplýsingar um umsókn Íslands um aðild að ESB og framgang viðræðnanna, kemur fram að samningsafstaða Íslands um 17. kafla, er fjallar um efnahags- og peningamál hefur verið birt.

Á vefnum segir að „samningsafstaðan var send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjum sambandsins eftir að um hana var fjallað í viðkomandi samningahópi, samninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd um Evrópumál og ríkisstjórn. Gert er ráð fyrir því að viðræður samninganefndar Íslands og ESB um kaflann hefjist fyrir lok þessa árs.“

Þá kemur fram að „Ísland áætli að taka þátt í gengissamstarfi Evrópu, ERM II, um leið og aðstæður leyfa og í kjölfarið taka upp evru eins skjótt og aðstæður leyfa . Aðildarríkjum ESB ber að taka þátt í ERM II í að minnsta kosti tvö ár áður en þau taka upp evru  og er markmið þess að viðhalda gengisstöðugleika. Þátttökuríki í ERM II binda gjaldmiðil sinn við evru og undirbúa sig þannig fyrir fastgengisumhverfi evrunnar og njóta til þess stuðnings Seðlabanka Evrópu.“

Nánar um samningsafstöðu Íslands um efnahags- og peningamál má finna hér: http://www.vidraedur.is/annad/frettir/nr/7244