Í liðinni viku lauk seinni rýnifundi Íslands og ESB um sjávarútvegsmál, sem og rýnifundi um skattamál. Á fyrrnefnda fundinum lagði íslenska sendinefndin áherslu á sérstöðu íslensks sjávarútvegs sem er þjóðhagslega mun mikilvægari en í nokkru aðildarríki ESB. Greint var frá árangri Íslands við stjórnun fiskveiða sem er almennt betri en innan ESB. Þá var fjallað um sérstöðu Íslands hvað varðar staðbundna stofna og þá staðreynd að efnahagslögsaga Íslands liggur ekki að efnahagslögsögu nokkurs aðildarríkis ESB.

Á fundinum um sjávarútvegsmálin var ennfremur lögð sérstök áhersla á þá fyrirvara sem fram koma í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis vegna aðildarumsóknar Íslands, m.a. forræði íslenskra stjórnvalda yfir sjávarauðlindinni með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Á vefsíðu utanríkisráðuneytisins um aðildarviðræðurnar er jafnóðum gert grein fyrir gangi mála og birtar þær greinargerðir sem einstakir samningahópar hafa unnið. Þar má meðal annars finna þrjár skýrslur sem samningahópur um sjávarútvegsmál hefur unnið.