Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Já Íslands frá og með 15. ágúst. Hún lauk B.A gráðu í stjórnmálafræði árið 2008 en áður stundaði hún nám í iðnrekstrarfræði við Tækniháskóla Íslands.

Sigurlaug Anna starfaði sem verkefnisstjóri rannsóknar á íbúalýðræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands árin 2008-2011 ásamt því að stunda meistaranám við sömu deild í opinberri stjórnsýslu.

Sigurlaug Anna hefur tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, einkum á sviði sveitarstjórnarmála.Hún er varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, situr í fræðsluráði Hafnarfjarðar, er varaformaður stjórnar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélagannaí Hafnarfirði, sat í stjórn Sjálfstæðisfélagsins Fram í Hafnarfirði frá 2007– 2011, þar af sem formaður í 2 ár.Enn fremur hefur hún átt sæti í stjórn málefnanefndar Sjálfstæðisflokksins um innanríkismál.

Sigurlaug hefur setið í Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar og í stjórn starfsmenntasjóðs Starfsmannafélags Hafnarfjarðar.   Hún situr núna í stjórn félags stjórnmálafræðinga.

Sigurlaug Anna sat í stjórn og framkvæmdastjórn samtakanna Heimili og skóli – landssamtök foreldra, á árunum 2009-2010, auk þess sem hún var framkvæmdastjóri samtakanna um tíma.

Sigulaug Anna hefur tekið virkan þátt í starfi tengdu Evrópumálum bæði á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og í félagsskap Evrópusinna. Hún hefur meðal annars setið í stjórn Já Íslands.

Sigulaug Anna var ráðin úr hópi umsækjenda en Capacent annaðist ráðningarferlið.

Um Já Ísland

Já Ísland er sameiginlegur vettvangur Evrópusinna, einstaklinga og samtaka. Það er samfélag þeirra sem vilja vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu með því að stuðla að hagstæðum aðildarsamningi og upplýstri og öfgalausri umræðu um aðildina.

Já Ísland er sameiginlegt verkefni Evrópusamtakanna, Evrópuvaktar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðra Evrópumanna, Sterkara Íslands og Ungra Evrópusinna.

Þeir einstaklingar sem styðja Já Ísland hafa margar og ólíkar skoðanir en eru sammála um að framtíð okkar Íslendinga sé betur borgið í samfélagi þjóðanna innan Evrópusambandsins en utan þess. Hver um sig er sammála á eigin forsendum og hefur fyrir því sínar ástæður og rök.

Nánari upplýsingar veita:

Jón Steindór Valdimarsson, formaður, 662 1217

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, 845 4036