Sigrún Gísladóttir„Öllu skiptir að nú verði breyting á þeirri slagorða- og rangfærsluumræðu, ef umræðu skyldi kalla, sem hér hefur ríkt til þessa. Hefur þetta einkennst af því að þeir sem óttast aðild, vegna sinna sérhagsmuna, hafa slegið fram staðhæfingum, í flestum tilfellum röngum eða afbökuðum, sem aðrir endurtaka hugsunar- og gagnrýnislaust hver eftir öðrum.”

Þetta segir Sigrún Gísladóttir, fyrrverandi skólastjóri og bæjarfulltrúi, í grein sinni í Morgunblaðinu. Þar segir hún ennfremur:

„Svarið við stóru spurningunni: Hvað verður best fyrir þjóðina, okkur öll sem búum á Íslandi? En ekki svarið við: Hvað verður best fyrir þá sem hafa sérhagsmuna að gæta, eins og valdastéttirnar sem hér hafa lengst af ráðið og ríkt og sérhagsmunahópana, í sjávarútvegi og landbúnaði? Hvernig verður landi og þjóð best borgið til langrar framtíðar, þannig að Ísland geti boðið þegnum sínum upp á réttlátt og samkeppnishæft samfélag, ekki bara fyrir okkur heldur ekki síst börnin okkar og barnabörnin? Þetta er hin stóra spurning sem við verðum að svara.”

Grein sinn líkur Sigrún með þessum orðum:

„Gleymum því ekki að það erum við sjálf, sem að lokum höfum síðasta orðið. Að því tilskildu að við komumst á lokapunktinn, sem er að geta sagt skoðun okkar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það ekki einmitt það, sem við teljum réttlátast í upplýstu og menntuðu samfélagi, að þjóðin hafi sjálf síðasta orðið?”

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. október 2010